Vinnustaðaskírteini og vinnustaðaeftirlit

Um eftirlit á vinnustöðum og vinnustaðaskírteini er fjallað í lögum nr. 42/2010 Markmið laganna með vinnustaðaskírteinum er að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og undirboðum á vinnumarkaði og að tryggja að atvinnurekendur og starfsmenn fari að lögum, reglugerðum og kjarasamningum.

Vinnustaðaskírteini

Í 3. gr. laga nr. 42/2010 koma fram reglur um vinnustaðaskírteini.  Reglur og framkvæmd eftirlits á vinnustöðum eru útfærð í samkomulögum milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um vinnustaðaskírteini m.a. með tilliti til þess í hvaða atvinnugreinum er ætlast til að  starfsmenn og atvinnurekendur að beri slík skírteini.

Það er á ábyrgð atvinnurekanda að sjá til þess að hann sjálfur sem og starfsmenn hans fái vinnustaðaskírteini þegar þeir hefja störf. Ber bæði atvinnurekendum og starfsmönnum að hafa vinnustaðaskírteinin á sér við störf sín. Á skírteininu skal koma fram nafn og kennitala atvinnurekanda eða annað auðkenni hans og nafn og kennitala viðkomandi starfsmanns ásamt mynd af starfsmanni og starfsheiti. Vekja ber athygli á að skyldan til útgáfu vinnustaðaskírteinis hvílir á atvinnurekanda óháð því hvort að starfsmenn séu ráðnir beint til hans eða koma til starfa með milligöngu starfsmannaleigu.

Meðal þeirra atvinnugreina þar sem atvinnurekendur og starfsmenn skulu vera með vinnustaðaskírteini eru. Athuga skal að listinn er ekki endilega tæmandi:

  • Byggingastarfsemi og mannvirkjagerð
  • Rekstur gististaða
  • Söluturnar og veitingarekstur
  • Húsgagna- og innréttingaiðnaður
  • Gleriðnaður og skyld starfsemi
  • Kjötiðnaður
  • Bakstur
  • Bílgreinar
  • Rafiðnaður
  • Ýmsar málm- og véltæknigreinar
  • Veitustarfsemi
  • Fjarskipti og upplýsingastarfsemi
  • Öryggisþjónusta
  • Ræktun nytjajurta
  • Svína- og alifuglarækt
  • Eggjaframleiðsla
  • Farþegaflutningar á landi og ferðaþjónusta
  • Skrúðgarðyrkja
  • Ýmis þjónustustarfsemi

Listi yfir þá atvinnustarfsemi sem fellur undir samkomulagið

Vinnustaðaeftirlit

Í 4. og 5. gr. laganna er fjallað um eftirlit á vinnustöðum og eftirfylgni eftirlits. Þar kemur fram að eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði atvinnurekanda til að ganga úr skugga um að starfsemi sé í samræmi við lög, reglugerðir og kjarasamninga. Eftirlitsfulltrúar skulu bera skírteini við störf sín sem samtök aðila vinnumarkaðarins gefa sameiginlega út. Eftirlitsfulltrúunum skal veittur aðgangur að vinnustöðum í þágu eftirlitsins.

Samkvæmt lögunum er eftirlitsfulltrúum heimilt að afla nauðsynlegra upplýsinga um starfsemina er varða eftirlitið. Sem dæmi um upplýsingar sem eru nauðsynlegar vegna eftirlits eru:

  • Vinnustaðaskírteini
  • Launaseðlar
  • Tímaskriftir
  • Viðveruskráningar
  • Ráðningarsamningar
  • Vinnuplön og vaktaplön
  • Upplýsingar um atvinnuleyfi

Dagsektir

Ef eftirlitsfulltrúum er meinaður aðgangur að vinnustöðum eða ef atvinnurekandi og/eða starfsmenn bera ekki vinnustaðaskírteini á sér við störf sín, getur það leitt til álagningu dagsekta af hálfu Vinnumálastofnunnar í samræmi við 1. til 4. mgr. 6. gr. laga nr. 42/2010.  Geta sektir þessar numið allt 1 milljón króna fyrir hvern dag, sbr. 5. mgr. 6. gr. (5.10 2018)