Einelti, áreitni og ofbeldi

Skilgreiningu á einelti, áreitni og ofbeldi er að finna í reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum má finna skilgreiningar um einelti, áreitni og ofbeldi:

Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi. 
Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðg­andi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. 
Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handa­hófs­kennda sviptingu frelsis.

Reglugerðin byggir á vinnuverndarlögum, lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar segir að atvinnurekendur beri ábyrgð á starfsumhverfinu í heild og skulu tryggja heilsusamlegar og öruggar vinnuaðstæður á vinnustaðnum út frá margvíslegum sjónarmiðum.

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd vinnuverndarlaganna. Á heimasíðu Vinnueftirlitsins má finna bækling sem inniheldur greinagóðar upplýsingar um einelti og kynferðislega áreitni, hvernig það birtist og viðbrögð við því Einelti og kynferðisleg áreitni á vinnustöðum – Forvarnir og viðbrögð og leiðbeiningarit fyrir starfsfólk. Vinnueftirlitinu ber skylda að gæta þess að vinnuverndarlögum sé framfylgt. Á heimasíðu vinnueftirlitsins má einnig nálgast upplýsingar um hlutverk og vinnubrögð Vinnueftirlitsins í eineltismálum.

Hvernig á að bregðast við?

Tilkynningaskylda starfsmanns

Starfsmaður sem hefur orðið fyrir eða hefur vitneskju um einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað skal upplýsa atvinnurekanda eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins um það. Starfsmaðurinn þarf að vera reiðubúinn að skýra mál sitt nánar ef ástæða þykir til.

Viðbrögð atvinnurekanda

Atvinnurekandi skal bregðast við eins fljótt og kostur er komi fram ábending eða kvörtun um einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað. Hið sama gildir þegar rökstuddur grunur er um að einelti eða önnur ótilhlýðileg háttsemi í garð starfsmanna eða stjórnenda á sér stað innan vinnustaðarins.

Meta á aðstæður í samvinnu við vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins, utanaðkomandi ráðgjafa ef með þarf og aðra er málið varðar. Atvinnurekandi skal grípa til viðeigandi ráðstafana og fylgja því eftir að einelti endurtaki sig ekki á vinnustaðnum.

Skyldur atvinnurekanda

Stjórnendur bera ábyrgð á starfsumhverfinu í heild

Í reglugerð um aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi kemur skýrt fram atvinnurekanda/stjórnanda beri skylda til að taka á eineltismálum sem koma upp. Einelti á vinnustöðum er alvarlegt vandamál sem stjórnendum ber að taka á. Stjórnendum ber jafnframt skylda til að skapa þær vinnuaðstæður/starfsskilyrði að einelti þrífist ekki innan vinnustaðarins og bera ábyrgð á gerð áætlunar um forvarnir og viðbrögð gegn einelti.

Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að forvörnum og aðgerðum gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum innan frá:Atvinnurekanda ber skylda til að láta einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað ekki viðgangast á vinnustað og skal hann gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun sé óheimil.

Ennfremur ber atvinnurekandi ábyrgð á gerð áætlunar um forvarnir og viðbrögð gegn einelti, áreitni og ofbeldi: skal atvinnurekandi gera áætlun um forvarnir þar sem meðal annars kemur fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustað.

Einnig skal atvinnurekandi gera grein fyrir þeim aðgerðum sem grípa skuli til komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi eigi sér stað eða hafi átt sér staða á vinnustaðnum eða verði atvinnurekandi var við slíka hegðun.

Atvinnurekandi ber einnig ábyrgð á að gera áhættumat og í því: skal atvinnurekandi meðal annars greina áhættuþætti eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum.

Kvörtun um einelti, áreitni eða ofbeldi

Starfsmaður sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi á vinnustað eða hafa rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun á vinnustað skal upplýsa atvinnurekanda eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins um það. Ef atvinnurekandi bregst ekki við er hægt að tilkynna málið til Vinnueftirlitsins.

Á heimasíðu Vinnueftirlitsins má sjá nánari leiðbeiningar um hvernig leggja má fram kvörtun til Vinnueftirlitsins um einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað. Þar er einnig hægt að nálgast eyðublað til að skrá niður málsatvik. Vinnueftirlitið er hlutlaus aðili sem tekur aldrei beinan þátt í úrlausn mála innan vinnustaðarins. Ábyrgð þess að einelti verði upprætt er alfarið hjá atvinnurekanda. Vinnueftirlitið skal þó sjá til þess að atvinnurekandi grípi til viðeigandi úrbóta ef hann hefur ekki sinnt skyldum sínum á viðunandi hátt hvað varðar öryggi og heilbrigði á vinnustað.

 Ferill máls vegna gruns um einelti, áreitni eða ofbeldi á myndrænan hátt