ASÍ styður frumvarp um greiðslumiðlun

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) styður fyrirliggjandi frumvarp sem veitir Seðlabanka Íslands heimildir til að auka viðnámsþrótt greiðslumiðlunar með það að markmiði að vinna að þjóðaröryggi, auka fjármálastöðugleika og draga úr samfélagslegum kostnaði vegna smágreiðslumiðlunar. Þetta kemur fram í umsögn ASÍ um frumvarpið sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda.  

Fram hefur komið að kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar er mun hærri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum eða sem nemur 1,43% af vergri landsframleiðslu samanborið við 0,79% í Noregi. Núverandi fyrirkomulag greiðslumiðlunar felur einnig í sér áhættu vegna þess hve háð Ísland er alþjóðlegum kortafyrirtækjum og fjarskiptum til og frá landinu. Frumvarpið felur í sér aukið sjálfstæði landsins um greiðslumiðlun, sem telst til þjóðhagslega mikilvægra innviða. 

Lækkun kostnaðar þjóðhagslegur ábati
Í umsögninni segir að til mikils sé að vinna að lækka kostnað samfélagsins vegna greiðslumiðlunar. ASÍ telji því að frumvarpið hafi umtalsverðan þjóðhagslegan ábata með sér í för. Frumvarpið feli í sér að Seðlabanki Íslands mun hafa heimildir til að gera ráðstafanir sem stuðla að virkri og öruggri innlendri greiðslumiðlun sem geti dregið úr kostnaði söluaðila, neytenda og þjóðfélagsins alls. Stofnun innlendrar greiðslulausnar verði til þess fallin að draga úr aðgangshindrunum aðila á markaði greiðslumiðlunar og auka þannig samkeppni um fjármálaþjónustu. 

Þörf á aukinni neytendavernd
Samhliða því að lækka kostnað neytenda vegna greiðslumiðlunar og auka gagnsæi þurfi að stuðla að aukinni neytendavernd vegna greiðsluþjónustu sem felist m.a. í að neytendur hafi upplýsingar um og þekkingu á rétti sínum til endurgreiðslu þegar mistök eða svik eiga sér stað. Mikilvægt sé að þar til bærar stofnanir sem fari með eftirlit eða úrskurði í neytendamálum séu í stakk búnar til þess að vinna úr þeim á skjótan og skilvirkan hátt.