Ferðakostnaður

Akstursgjald

Noti starfsmaður eigin bifreið í þágu atvinnurekanda ber að greiða fyrir notkun samkvæmt kílómetragjaldi sé ekki samið um annað endurgjald. 

  • Fyrstu 10.000 km, kr. 111,00 pr. km
  • Frá 10.000 til 20.000 km, kr. 100,00 pr. km
  • Umfram 20.000 km, kr. 89,00 pr. km
Við útreikning á sérstöku gjaldi skal bæta 15% álagi á almenna gjaldið og við útreikning á torfærugjaldi skal bæta 45% álagi á almenna gjaldið. 

Dagpeningar 

Ferðakostnaður á ferðalögum innanlands sem utanlands greiðist með dagpeningum skv. ferðakostnaðarnefnd ríksins, nema samið sé um skil á nótum fyrir útlögðum kostnaði. Frekari upplýsingar er að finna á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. 

Leyfilegur frádráttur

Dagpeningar sem greiddir eru vegna ferðalaga á vegum launagreiðanda er ætlað að standa undir kostnaði launamanns vegna fjarveru frá heimili sínu, s.s. gisti- og fæðiskostnaði og öðrum tilfallandi kostnaði sem af ferðinni hlýst.
 
Á hverju ári eru settar reglur um hámark frádráttar frá dagpeningagreiðslum. Ekki þarf að draga staðgreiðslu frá dagpeningunum ef greiðslurnar eru ekki hærri en ákvörðun ferðakostnaðarnefndar segir til um á hverjum tíma. Séu þær hærri ber að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu af mismuninum.