Fræðslustyrkir

Eining-Iðja á aðild að þremur fræðslusjóðum, Landsmennt, Ríkismennt og Sveitamennt, sem veita annars vegar einstaklingsstyrki vegna einstakra námskeiða og hins vegar styrki til stærri verkefna þar sem um væri að ræða samstarf fyrirtækja og verkalýðsfélaga í starfsmenntun, það er skipulagning á heildarlausnum starfstengdra námskeiða á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins. 

Skil á gögnum

Ekki er hægt að ábyrgjast greiðslu um næstu mánaðamót ef umsókn og gögn berast til félagsins eftir 24. hvers mánaðar. Sérstakur umsóknarfrestur er í febrúar og desember og er hann auglýstur sérstaklega.

Best er að skila rafrænt í gegnum Mínar síðu félagsins  þar sem félagsmenn skrá sig inn með rafrænum skilríkjum og geta m.a. sótt um rafrænt þá styrki sem í boði eru í sjúkrasjóði og í fræðslusjóði. Ef þið lendið í vandræðum með innskráninguna þá er starfsfólk félagsins boðið og búið að aðstoða ykkur. Félagsmenn, skoðið vel og lagið ef þarf bankaupplýsingar, símanúmer og netföng.

Landsmennt - fræðslusjóður SA og verkafólks á landsbyggðinni innan SGS

  • Aðildarfélögin eru 16 og er þar um að ræða stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands.
  • Helstu verkefni sjóðsins eru að sinna stuðningsverkefnum og þróunar-og hvatningaraðgerðum í starfsmenntun. Sjóðnum er ætlað að styrkja rekstur námskeiða og stuðla að nýjungum í námsefnisgerð ásamt því að veita einstaklingum, verkalýðsfélögum og fyrirtækjum beina styrki vegna sí- og endurmenntunar. 
  • Einstaklingar sækja um styrki á þar til gerðum eyðublöðum til viðkomandi stéttarfélags sem sér um afgreiðslu þeirra í umboði Landsmenntar.

Ríkismennt - þróunar-og símenntunarsjóður starfsmanna ríkisins á landsbyggðinni innan SGS

  • Markmið sjóðsins er annars vegar að efla símenntun starfsmanna og hins vegar að auka möguleika stofnana á að þróa starfsvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til stofnana á hverjum tíma.
  • Einstaklingar sækja um styrki á þar til gerðum eyðublöðum til viðkomandi stéttarfélags sem sér um afgreiðslu þeirra í umboði Ríkismenntar.

Sveitamennt - starfsmenntunarsjóður starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni innan SGS

  • Sveitamennt tók formlega til starfa 1. janúar 2007 og byggir á gr. 13.4.3. um starfsmenntunarsjóð í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands (SGS). 
  • Markmið sjóðsins er annars vegar að auka möguleika sveitarfélaga og stofnana þeirra á að þróa starfssvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra á hverjum tíma og efla starfsmenntun starfsmanna með það fyrir augum að þeir verði færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni.
  • Einstaklingar sækja um styrki á þar til gerðum eyðublöðum til viðkomandi stéttarfélags sem sér um afgreiðslu þeirra í umboði Sveitamenntar.

Sá háttur er hafður á einstaklingsstyrkjunum að hver félagsmaður getur sótt um styrk til félagsins, sem afgreiðir styrkinn eftir starfsreglum sjóðanna. Eining-Iðja sækir síðan um endurgreiðslu til þeirra. Félagsmenn eiga rétt á að sækja um að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og er fólk hvatt til að hafa samband við félagið og kanna rétt sinn.

Ríkismennt og Sveitamennt - Samningur um starfstengda símenntun

Á árinu 2019 gerði SÍMEY samninga við starfsmenntunarsjóðina Sveitamennt og Ríkismennt um starfstengda símenntun. Með samningnum var tekið fyrsta skrefið í átt að auknu og markvissu samstarfi á milli aðilanna í þágu þekkingaröflunar starfsmanna og sveitarfélaga og ríkisstofnana á Norðurlandi. 

Þessi samningur þýðir að sjóðirnir munu greiða fyrir þátttöku þeirra almennu starfsmanna sveitarfélaga og ríkisstofnana, stofnana þeirra og sjálfseignastofnana sem eru aðilar að Sveitamennt og Ríkismennt. Hér er um að ræða þátttöku starfsmanna í starfstengdum námskeiðum sem skipulögð eru af SÍMEY. 

Félagsmenn í Einingu-Iðju sem eiga aðild að Ríkismennt og Sveitamennt geta því sótt námskeið hjá SÍMEY og greiða sjóðirnir fyrir þátttöku þeirra að fullu. Athugið að þátttaka mun ekki skerða einstaklingsstyrki starfsmanna í starfsmenntasjóðum.