Fundur er haldinn í stjórn sjúkrasjóðs einu sinni í mánuði. Ekki þarf að fylla út umsókn, einungis þarf að skila inn löglegum reikningi eða greiðslukvittun frá viðkomandi aðila til félagsins. Gögn sem leggja á fyrir fund þurfa að hafa borist til skrifstofunnar í síðasta lagi 24. hvers mánaðar (breytilegt í desember og febrúar) til að fá borgað út um næstu mánaðamót.
Einfalt er að sækja um og skila gögnum í gegnum Mínar síður félagsins, skoðið og lagið ef þarf bankaupplýsingar, símanúmer og netföng.
ATHUGIÐ! Ekki er hægt að sækja um sjúkradagpeninga, útfarastyrk eða styrk vegna áfengis- og vímuefnameðferðir í gegnum Mínar síður félagsins. Á heimasíðunni má finna upplýsingar og umsóknir um Sjúkradagpeninga og Útfararstyrk. Varðandi styrk vegna áfengis- og vímuefnameðferðar þarf að hafa samband við skrifstofu félagsins á Akureyri.
Heimilt er að greiða eingreiddan útfararstyrk við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga í sjúkrasjóð Einingar-Iðju kr. 480.000. Rétthafar bóta eru nánustu aðstandendur sjóðfélaga. Það þarf alltaf að skila dánarvottorði þegar sótt er um útfararstyrk.
Virkur og greiðandi sjóðfélagi heldur réttindum til útfararstyrks í tvö ár, hafi hann látið af starfi vegna veikinda.
Stjórn sjóðsins hefur heimild til að veita styrk vegna andláts sjóðfélaga sem látið hefur af starfi meira en tveim árum fyrir andlát. (Að hámarki kr. 88.000 að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.) Umsókn um slíkan styrk þarf einnig að fylgja skattframtal vegna síðastliðins árs.