Reglugerð fyrir starfsgreinadeildirnar

  1. Trúnaðarráð ákveður stofnun starfsgreinadeilda innan félagsins. Aðild starfshópa að hverri starfsgreinadeild skal skilgreind með upptalningu.
  2. Í stjórnum starfsgreinadeilda skulu vera 9 aðalmenn sem sitja alla stjórnarfundi deildanna. Ekki skal kjósa varamenn. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára sem hér segir: Annað árið formann, ritara og þrjá (3) meðstjórnendur en hitt árið varaformann og þrjá (3) meðstjórnendur. Aðalfund hverrar starfsgreinadeildar skal halda fyrir 1. apríl ár hvert.
  3. Starfsgreinadeildirnar skulu eiga fulltrúa í stjórn félagsins eins og nánar er kveðið á um í 14. gr. og 23. gr. laga félagsins.
  4. Starfsgreinadeildir vinna að sérmálum þeirra starfsgreina, sem þær taka til, og vinna að undirbúningi og gerð sérsamninga þeirra í nánu samstarfi við stjórn og samninganefnd félagsins.
  5. Starfsgreinadeildir tilnefna þann fulltrúafjölda í trúnaðarráð og samninganefnd félagsins, sem stjórn félagsins heimilar.
  6. Formaður starfsgreinadeildar kveður til stjórnarfunda í viðkomandi deild og stjórnar þeim. Hann metur hvenær þörf sé á að halda fund en auk þess er honum skylt að boða stjórn deildarinnar til fundar, ef a.m.k. þrír stjórnarmenn óska eftir því og tilgreina fundarefni. Skal fundargerð lögð fram til samþykktar í byrjun næsta fundar á eftir.
  7. Almennir fundir í starfsgreinadeildum skulu haldnir þegar stjórnin álítur þess þörf eða minnst 10 fullgildir félagsmenn krefjast þess skriflega, enda sé fundarefni tilgreint af þeim er kröfuna gera.
  8. Félagið kostar starfsemi starfsgreinadeilda eftir nánari ákvörðun félagsstjórnar og skulu þær hafa aðstöðu í húsnæði félagsins. Þar skulu og öll gögn þeirra varðveitt.
  9. Formenn og varaformenn deilda eru sjálfkjörnir í stjórn félagsins.

Reglugerðin þannig samþykkt á aðalfundi Einingar-Iðju 6. apríl 2017