Sjúkradagpeningar

Greiðslur dagpeninga úr sjúkrasjóði

Fundur er haldinn í stjórn sjúkrasjóðs einu sinni í mánuði. Gögn sem leggja á fyrir fund þurfa að hafa borist til skrifstofunnar í síðasta lagi 24. hvers mánaðar (breytilegt í desember og febrúar) til að fá borgað út um næstu mánaðamót.

ATHUGIÐ! Ekki er hægt að sækja um sjúkradagpeninga, útfarastyrk eða styrk vegna áfengis- og vímuefnameðferðir í gegnum Mínar síður félagsins. Á heimasíðu félagsins má finna upplýsingar og umsóknir um  Sjúkradagpeninga og  Útfararstyrk.  Varðandi styrk vegna áfengis- og vímuefnameðferðar þarf að hafa samband við skrifstofu félagsins á Akureyri.

Fylgigögn sem þurfa að berast með umsókn um dagpeninga

Ekki er hægt að taka umsóknina fyrir fyrr en eftirfarandi gögn berast til stjórnar sjúkrasjóðsins)

  • Læknisvottorð frá lækni, upprunnið í tölvukerfum heilsugæslunnar og spítalanna.
  • Launaseðlar síðustu sex 6 mánaða
  • Staðfesting frá vinnuveitanda um greidda veikindadaga

Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum greiðast í allt að 120 daga (4 mánuði) að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Dagpeningar skulu að viðbættum bótum almannatrygginga, greiðslum úr slysatryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, ekki nema lægri fjárhæð en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.

Dagpeningar greiðast í allt að 3 mánuði að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.

Dagpeningar greiðast í allt að 3 mánuði vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.

Dagafjölda greiddra dagpeninga, til þeirra sem greitt er hlutfallslega lægra iðgjald af en 1%, er heimilt að skerða í sama hlutfalli og iðgjaldið er lægra en 1%.

Dagpeninga er heimilt að miða við meðaltal heildarlauna á síðustu 12 mánuðum í stað síðustu 6 mánaða, hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á viðmiðunartímabilinu. Hámark dagpeninga skal vera kr. 755.210.- á mánuði og hækka skv. launavísitölu.

Réttur til dagpeninga endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum lýkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.

Þeir félagar, sem dvelja á endurhæfingarstöðvum S.Á.Á. eða sambærilegum stofnunum, skulu fá greidda dagpeninga samkvæmt tilheyrandi vottorðum einu sinni í allt að sex vikur á hverjum þrem árum m.v. almanaksárið.

Greiðslur úr sjóðnum skulu fara fram um mánaðamót.

Við ráðstöfun fjármuna skv. 12.8 og 12.9 reglugerðar sjúkrasjóðs skal þess gætt að möguleiki sjóðsins til að standa við upphaflegar skuldbindingar sínar vegna sjúkdóma og slysa skerðist ekki. Í reglulegri úttekt á afkomu sjóðsins, skv. 6. gr., skal úttektaraðili skoða þennan þátt sérstaklega.

Slysadagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna bótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. bifreiðaslysa, þar sem bætur greiðast skv. skaðabótalögum.

Viðbót frá Tryggingastofnun
Þeir sem hafa verið veikir í þrjár vikur geta einnig sótt um sjúkradagpeninga til Sjúkratrygginga Íslands, en þó geta sameiginlegar greiðslur frá Einingu-Iðju og Sjúkratryggingunum aldrei numið hærri upphæð en viðkomandi hafði í laun. Hjá Stjúkratryggingum er ekkert greitt fyrstu tvær vikurnar.