Stéttarfélagið þitt

Stéttarfélög eru frjáls félagasamtök launafólks hlutverk þeirra er ð gæta hagsmuna félagsmanna sinna og launafólks almennt gagnvart atvinnurekendum og samtökum þeirra m.a. með gerð kjarasamninga.

Félagssvæði

Samkvæmt 1. gr. laga Einingar-Iðju er starfs- og félagssvæði Akureyri, Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð og allir hreppar Eyjafjarðarsýslu. Ennfremur Svalbarðsstrandar- og Grýtubakkahreppur í Suður-Þingeyjarsýslu.

Félagsgjald og þjónustugjald

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um starfskjör launafólks o.fl. nr. 55/1980 er atvinnurekendum skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags skv. þeim reglum sem kjarasamningar greina.

Þeir sem ekki vilja vera í stéttarfélagi verða samt að greiða þangað iðgjald sem er þá greiðsla til félagsins fyrir að sinna þeirri þjónustu sem félagið veitir, meðal annars með kjarasamningsgerðinni.

Hagsmunir

Réttur og jafnframt hagur launamanns er að hann sé að greiða í rétt stéttarfélag frá upphafi þar sem launþegi sem fluttur er á milli félaga getur tapað miklum réttindum úr sjóðum félaganna ásamt fleiri veigamiklum réttindum. Stéttarfélög hafa þær lögboðnu skyldur að gæta að og fylgja því eftir að kjarasamningar séu virtir.

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 kveða á um rétt manna til að:

  • Stofna stéttarfélög
  • Til að ganga í stéttarfélög
  • Rétt félaga til að gera kjarasamninga
  • Um rétt til að skipa trúnaðarmenn
  • Sáttastörf í vinnudeilum
  • Um vinnustöðvanir
  • Félagsdóm

Lögin eru því aðallega um starfsemi stéttarfélaga og samskipti við atvinnurekendur.