Orlof

Orlof og leyfi frá störfum eru undantekningar frá þeirri meginskyldu starfsmanns að skila því verki sem hann hefur skuldbundið sig til með ráðningu sinni til starfa. Orlof er lögbundið og er um að ræða sumarorlof eða sumarfrí, sá réttur er tvíþættur anars vegar réttur til leyfis og hins vegar réttur til launa.

Tímabil

Orlof er veitt á tímabilinu frá 2. maí til 30. september á almenna markaðinum. Ávinnsla vegna þess er 1. maí til 30. apríl árið áður. Þrátt fyrir að starfsmaður hefur ekki áunnið sér orlof á launum á hann rétt á því að óska eftir orlofi án launa. 

Lágmarksorlof

  • Lágmarksorlof er 24 dagar á ári miðað við fullt starf á almenna markaðinum. Sjá kafla 4. í kjarasamningi
    • Orlofslaun skulu vera 10,17% af öllu kaupi, hvort sem er fyrir dagvinnu eða yfirvinnu.
    • Starfsmaður sem unnið hefur 5 ár í sama fyrirtæki eða 10 ár í sömu starfsgrein skal eiga rétt á orlofi í 25 daga og orlofslaunum sem nema 10,64%. Með sama hætti öðlast starfsmaður sem unnið hefur 10 ár hjá sama fyrirtæki 30 daga orlofsrétt og 13,04% orlofslaun.
    • Starfsmaður sem hefur fengið aukinn orlofsrétt vegna starfa í sama fyrirtæki öðlast hann að nýju eftir 3 ár hjá nýjum atvinnurekanda, enda hafi rétturinn verið staðreyndur.
  • Hjá ríki og sveitarfélögum er orlof 30 dagar hjá öllum. 

Hvenær veitt

Atvinnurekandi ákveður í samráði við launþega hvenær orlof skuli veitt. Ásamt því að  verða við óskum launþega um hvenær orlof skuli veitt að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar.

Að lokinni könnun á vilja launþegans skal atvinnurekandi tilkynna, svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs, hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli.  

Veikindi í orlofi

Veikist starfsmaður í orlofi telst sá tími, sem veikindum nemur, ekki til orlofs enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann geti ekki notið orlofsins. 

Þegar veikindi hefjast ber starfsmanni að tilkynna það á vinnustað með sannanlegum hætti, sama hvar hann er staddur í veröldinni, eins og hann væri í vinnu. Þá getur hann tekið orlofið síðar, eftir að hann hefur náð heilsu á ný, með samkomulagi við yfirmann sinn.

Réttur til launa

Hafi starfsmaður einungis unnið hluta orlofsársins á hann rétt á leyfi frá störfum m.v. við lögbundinn lámgmarksrétt en einungis hlutfallslegan rétt til orlofslauna.

Greiðsla orlofs

Greiðsla olofs getur verið með þeim hætti að tekið er orlofsprósenta (10,17%-13,04%) af launum sem kemur til útborgunar um miðjan maí ár hvert. Jafnframt getur einstakligur einnig samið umað halda launum sínum í orlofi þ.e. sumarorlof á mánaðarlaunum.

Orlof innifalið í launum er ólögmætt og andstætt ákvæðum kjarasamninga.

Uppgjör við starfslok

Gera skal upp áunnið orlof við starfslok.

Ávinnsla orlofs

Orlof ávinnst frá 1. maí - 30. apríl ár hvert, og áunnið orlof er tekið út m.v. ávinnslu ársins áður. 

dæmi: starfsmaður byrjar að vinna 1. maí 2018 og er enn í vinnu þegar sumarorlof hefst árið 2019. Má reikna með að starfsmaður sem hefur unnið fulla vinnu á rétt á tveimur dögum fyrir hvern unninn mánuð á tímabilinu 1. maí 2018 - 30.apríl 2019 sem samsvarar 24 virkir dagar í orlof á launum.