Veikindaréttur

Veikindaréttur er neyðarréttur starfsmanna ef til veikinda kemur, sem tryggir starfsmanni sem hefur áunnið sér veikindarétt rétt til greiðslu launa í veikindum.

Til að eiga rétt á greiðslu launa í veikindum þarf að vera ráðningarsamband milli launamanns og atvinnurekanda þ.e. gildur ráðningarsamningur hvort heldur munnlegur eða skriflegur. Fólk sem er lausráðnið á sama rétt til greiðslna í veikindum og annað fólk ef það hefur áunnið sér veikindarétt skv. kjarasamningi og er veikt þá daga eða á því tímabili sem ákveðið hafði verið að það starfaði hjá atvinnurekanda.

Tilkynning um veikindi

Til þess að eiga rétt á greiðslu þarf launþegi að hafa tilkynnt um veikindi með réttum hætti. Sé ekki tilkynnt getur starfsmaður átt það á hættu að vera vikið úr starfi fyrirvaralaust vegna vanefnda á samningi. Oft er það tekið fram við ráðningu starfsmanns með hvaða hætti hann skuli tilkynna veikindi. 

Læknisvottorð

Krefjist atvinnurekandi læknisvottorðs til sönnunar forföllum vegna veikinda ber honum að greiða fyrir útgáfu vottorðsins, ef ekki er óskað eftir því en því samt sem áður skilað inn verður atvinnurekanda ekki gert að greiða fyrir útgáfu þess.