Á orlofsvef félagsins geta félagsmenn keypt ferðaávísun sem tryggir bestu kjörin á gistingu á hótelum og gistiheimilum um allt land. Þar er einnig hægt að kaupa niðurgreidd veiðikort og útilegukort.
Ferðaávísun
Við bjóðum félagsmönnum okkar að kaupa ferðaávísun sem tryggir bestu kjörin á gistingu á hótelum og gistiheimilum um allt land. Eingöngu til sölu á orlofsvef félagsins!
Stéttarfélögin sem eiga aðild að Frímann-kerfinu sameinuðu krafta sína og komust að samkomulagi við fjölmörg hótel og gistiheimili víðs vegar um landið. Þau hafa boðið félagsmönnum okkar afar hagstætt verð. Í ofanálag niðurgreiðum við gistinguna um 20% af valinni upphæð. Niðurgreiðslan getur að hámarki verið 15.000 krónur á hverju almanaksári.
Félagsmenn skrá sig inn á orlofsvefinn og kaupa þar ferðaávísun sem gildir á tugum hótela og gistiheimila í öllum landsfjórðungum, án þess að festa dagsetningu dvalarinnar. Þeir velja upphæð ávísunarinnar og greiða fyrir. Þeir bóka því næst gistingu á þeim stað sem þeim hugnast en herbergi, þjónusta og verð er breytilegt á milli gististaða.
Nú er líka hægt að nota ferðaávísunina upp í gönguferðir, en búið er að semja við Ferðafélag Íslands, Útivist og Fjallafjör um að taka við Ferðaávísun stéttarfélagana. Félagsmenn njóta sérkjara á völdum ferðum en einnig má nota Ferðaávísun upp í hvaða ferð sem er á vegum þessara fyrirtækja.
Ef svo háttar að umrætt hótel eða gistiheimili er fullt, eða ef ferðaáætlunin tekur breytingum þegar nær ferðinni dregur, er hægt að nota ávísunina hjá hvaða samstarfsaðila sem er, hvenær sem gistipláss er laust og með hvaða tilboði sem er. Þannig hafa félagsmönnum verið tryggð bestu hugsanlegu kjör og útilokað að þeir fari á mis við betri tilboð, til dæmis þegar líður á komandi sumar.
Þegar farið er inn á orlofsvefinn, og smellt á „Ferðaávísun“, opnast síða þar sem hægt er að skoða þau fjölmörgu tilboð á gistingu sem félagsmönnum standa til boða. Í boði er allt frá einfaldri gistingu á litlum gistiheimilum upp í vegleg hótelherbergi með fullri þjónustu og dýrindis morgunverði. Einnig er hægt að velja upphæð að eigin vali, til dæmis 5.000 eða 15.000 krónur, og nota hvar sem er þegar land er lagt undir fót. Ávísunin veitir aðgang að bestu tilboðum þessara hótela og gistiheimila. Valið er þitt.
Hér fyrir neðan má finna nokkrar spurningar og svör um þessa nýju ferðaávísun.
Hvað er ferðaávísun?
Hvers vegna ætti ég að kaupa ferðaávísun?
Hvar sé ég hvaða tilboð eru í boði?
Þarf ég að binda mig við tiltekið hótel?
Hvernig get ég treyst því að það komi ekki fram betri tilboð eftir að ég hef keypt ferðaávísun?
Hvar kaupi ég ferðaávísunina og hvernig nálgast ég hana?
Hvernig nota ég ferðaávísunina?
Get ég fengið ávísunina endurgreidda?
Ég hef notað hluta ferðaávísunarinnar, get ég fengið restina til baka?
Rennur ávísunin út?
Ég hef ekki aðgang að tölvu eða snjallsíma eða er ekki með rafræn skilríki. Hvernig get ég keypt ferðaávísun?
Útilegukortið sumarið 2024
Útilegukortið gildir á viðkomandi tjaldsvæðum á meðan tjaldsvæðin eru opin fyrir almenning út árið 2024, en þó ekki lengur en til 15. september. Kortið veitir tveim fullorðnum og fjórum börnum undir 16 ára aldri fría gistingu á tjaldsvæðum samstarfsaðila Útilegukortsins í allt að 28 gistinætur á hverju starfsári þess. Engin takmörk eru fyrir því hve oft má koma á hvert tjaldsvæði innan gistináttanna 28 en einungis má gista í fjórar nætur samfellt í hvert skipti. Útilegukortið gildir fyrir tjöld, tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi og húsbíla.
Ath! gistináttaskattur er ekki innifalinn í Útilegukortinu.
Kortin eru EKKI til sölu á skrifstofum félagsins. Útilegukortið er rafrænt og þegar það er pantað er hægt að fá það sent í tölvupósti og/eða SMS eftir að greiðsla fer fram. Þá þarf viðkomandi að skanna QR kóða til að fá kortið beint í rafrænt veski í símann sinn. Nauðsynlegt er að setja upp rafrænt veski í símann áður en ýtt er á hlekk sem kemur frá söluaðila (Útilegukortinu).
Allar upplýsingar um kortið má fá á vefsíðunni www.utilegukortid.is
Veiðikortið sumarið 2024
Veiðikortið er mjög hagkvæmur valkostur sem hentar jafnt veiðimönnum sem fjölskyldufólki. Með Veiðikortið í vasanum er hægt að veiða nær ótakmarkað í 36 veiðivötnum víðsvegar um landið sem og tjalda endurgjaldslaust við mörg þeirra.
Kortið verður eingöngu til sölu á orlofsvef félagsins! Athugið að gott er að panta með góðum fyrirvara. Það getur tekið allt að viku, jafnvel rúmlega það, að fá kort með póstinum.
Allar frekari upplýsingar og lista um veiðisvæði má nálgast á www.veidikortid.is