1. maí á Kvennaári 2025

Eftirfarandi grein eftir Guðrúnu Margréti Guðmundsdóttur, sérfræðings hjá ASÍ um jafnréttismál, má finna á heimasíðu ASÍ.

Kvennaárið 2025 er haldið til að minnast þess að hálf öld er liðin frá því að íslenskar konur tóku höndum saman og breyttu sögunni. Með því að leggja niður störf þann 24. október 1975 settu þær mark sitt á samfélagið með kröfu um virðingu, jöfnuð og sýnileika. Nú, 50 árum síðar, er aftur blásið til átaks og ASÍ tekur fullan þátt ásamt fjölda annarra.  

Það er tilefni til að fagna og 1. maí þetta árið ber sterk merki Kvennaársins út um allt land. Konur stýra hátíðarhöldum víða, stíga í pontu með þrumuræður og fylla götur landsins af baráttukrafti. Þessi grein dregur upp mynd af því hvernig Kvennaárið endurspeglast á baráttudegi verkafólks í ár.  

1. maí 1970, baráttudagur verkalýðsins. Kröfuganga fer niður Laugaveg við Hlemm. Konur krefjast jafnréttis og ganga með stórt kvenlíkneski.

Af hverju Kvennaárið 2025? 
Árið 1975 lýstu Sameinuðu þjóðirnar yfir alþjóðlegu kvennaári og hvöttu aðildarríki til að beina sjónum að stöðu kvenna í samfélaginu. Hér á landi voru haldnir viðburðir og uppákomur víða um land sem náðu hámarki fyrrnefndan 24. október sama ár, þegar 90% íslenskra kvenna lögðu niður störf í hinu sögufræga kvennafríi. Með þeim gjörningi var kastljósinu beint að mikilvægi vinnuframlags kvenna – bæði launaðs og ólaunaðs – og þeirri ójöfnu stöðu sem þær bjuggu við, bæði á heimilum og vinnumarkaði. Þar var lagður grunnur að gríðarlegum samfélagsbreytingum og sterkri kvennasamstöðu sem hefur mótað íslenska kvennabaráttu allar götur síðan. 

Kvennafrí 1975 – Kvennasögusafn

Á þessum víðfræga útifundi við Arnarhól árið 1975 hélt Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, verkakona og verkalýðsleiðtogi, áhrifamikla ræðu. Þar talaði hún afdráttarlaust um kerfisbundinn launamun kynjanna og vanmat á störfum kvenna – sérstaklega þeirra sem verst voru settar á vinnumarkaði, þ.e. verkakonur. Hún krafðist virðingar og réttmætrar umbunar fyrir störf láglaunakvenna – baráttu sem sannarlega á erindi enn í dag. 

Kvennafrí 1975 – Kvennasögusafn

Nú, 50 árum síðar, er Kvennaárið endurvakið af hálfu kvenna- og verkalýðshreyfingarinnar auk samtaka hinsegin og kynsegin fólks, fatlaðra kvenna o.s.frv., alls um fimmtíu talsins, og aftur blasa við þrjár kröfur sem endurspegla óásættanlegan veruleika: kerfisbundið vanmat á kvennastörfum, óhóflega umönnunarbyrði kvenna og viðvarandi kynbundið ofbeldi. Þótt margt hafi áunnist, einkum í efstu lögum samfélagsins, eru tekjur kvenna enn 21% lægri en karla og enn er langt í land á mörgum sviðum tilverunnar. 

Áherslur ASÍ á Kvennaári 2025 
ASÍ tekur, eins og áður segir, vitaskuld virkan þátt í Kvennaári 2025, hinu víðtæka sameiginlega verkefni og styður kröfur kvennaársins (sjá kvennaar.is) af heilum hug. ASÍ hefur jafnframt ákveðið að draga sérstaklega fram þær áherslur sem byggja á veruleika kvenna innan ASÍ. 

Á Kvennaráðstefnu ASÍ í nóvember 2024, sem haldin var á Akureyri, var það einróma álit ráðstefnugesta að nýta ætti Kvennaárið 2025 út í ystu æsar til að efla kvennasamstöðu þvert á öll 44 aðildarfélög sambandsins. Hjá ASÍ yrði Kvennaárið haldið með pompi og prakt úti um allt land. Einnig var lögð sérstök áhersla á að beina sjónum að stöðu og velferð kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði og fá þær með í verkalýðs- og kvennabaráttuna í auknum mæli – en það er efni í sérgrein. 

Strax í upphafi árs var settur saman hópur með fulltrúum landsbyggðanna frá aðildarfélögum ASÍ, BSRB og Kvenfélagasambandinu – í kringum 30 konur sem hittast reglulega á fjarfundum til að ræða áform sín og hugleiðingar tengdar þessu merkisári í sínum heimahögum. 

Kvennaársandinn svífur yfir vötnum 1. maí 2025 
ASÍ-konur létu ekki á sér standa og verður 1. maí út um allt land undir sterkum áhrifum Kvennaársins.