1. maí er auðvitað alltaf stór dagur hjá öllu verkafólki en í ár fögnum við 100 ára afmæli Fyrsta maí-hátíðarhalda við Eyjafjörð. Saga verkalýðshreyfingarinnar hér nær auðvitað mun lengra aftur í tímann en fyrstu áratugirnir fór eingöngu í það að fá vinnandi fólk til að trúa því að hag þess væri best borgið í stéttarfélagi og jafnframt að fá atvinnurekendur til að viðurkenna tilvist verkalýðsfélaga og setjast að samningaborðinu. Það var svo fyrst fyrir sléttum 100 árum sem forverar okkar gáfu sér tíma til að brydda upp á skemmtun og léttleika samhliða baráttunni. Því aldarafmæli fögnum við í ár.
Í bókinni Til starfs og stórra sigra - Saga Einingar-Iðju 1906-2004 eftir Jón Hjaltason segir að árið 1925 var 1. maí haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn á Akureyri. Haldnar voru ræður, til dæmis velti Elísabet Eiríksdóttir fyrir sér stöðu konunnar í verkalýðshreyfingunni og Steinþór Guðmundsson undirstrikaði að börn væru betur sett þar sem jafnaðarstefnunnar gætti á kostnað íhaldsins. Og við verðum að gera svo miklu betur fyrir börnin, sagði Steinþór, byggja nýja barnaskóla og leiksvæði svo þau þurfi "ekki að vera á forugum og óþrifalegum götum alla daga." Samkoman var haldin í stóra sal Samkomuhússins, sem var skreyttur í tilefni dagsins og "alskipaður uppi og niðri," sagði í Verkamanninum.
Í Verkamanninum (19. tbl sem kom út 5. maí 1925) má finna eftirfarandi frétt um fyrstu 1. maí hátíðarhöldin á Akureyri, en í hana er verið að vísa hér á undan.
1. maí
Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna hér á Akureyri gekst fyrir samkomu, sem haldin var í Samkomuhúsinu að kveldi 1. maí sl. Var hún haldin til að heiðra þennan aæheims hátíðardag verkalýðs og jafnaðarmanna. Sóttu hana meðlimir verkalýðsfélaganna og Jafnaðarmannafélagsins og þar að auki nokkrir boðsgestir. Var stóri salur Samkomuhússins alskipaður uppi og niðri.
Forseti fulltrúaráðsins, Erlingur Friðjónsson, setti samkomuna og lýsti tilgangi hennar. Einar Olgeirsson sagði frá uppruna 1. maí hátíðarinnar fyrir verkalýð allra landa, og lýsti því, hvernig þeir færu fram erlendis, þar sem verkalýðshreyfingin er orðin róttæk og sterk. Elísabet Eiríksdóttir talaði um aðstöðu konunnar gagnvart verkalýðsheyfingunni og jafnaðarstefnunni og mintist nokkuraa kvenna, er hefðu starfað og störfuðu að þessum málum og sýndu í verki, að konur stæðu ekki körlum að baki í pólitísku starfi. Halldór Friðjónsson talaði um hindurvitni og kynjasögu þær, er alltaf spryttu upp, er ný félagshreyfing, eða stefnur í þjóðmálum væru á ferðinni, og sagði nokkrar sögur því til sönnunar. Einnig kvað hann það mikið halda aftur af framgangi verkalýðshreyfingarinnar, hve alþýða manna væri ógjörn á að koma opinberlega fram og hylla hugsjón sína hvar sem væri. Steinþór Guðmundsson talaði um socialismann og barnauppeldið og sýndi fram á hve alþýðufræðsla væri lengra á veg komin, þar sem jafnaðarstefnunnar hefði gætt, en þar sem íhaldið réði lögum og lofum. Einnig benti hann fundinum á að verkefni lægi fyrir þessum bæ þar sem almenningi gæfist kostur á að sýna hvað hann vildi gera fyrir börnin á Akureyri, þar sem bæði væri barnaskólabygging og leiksvæði fyrir börnin, svo þau þyrftu ekki að vera á forugum og óþrifalegum götum alla daga. Einnig var skemt með upplesti (Ingibjörg Steinsdóttir) og einsöng (Jón Norðfjörð) og kvartett söng á eftir flestum ræðunum; þar á meðal alþjóðasöng jafnaðarmenna og stóðu allir upp í húsinu á meðan sá söngur var sunginn. Salurinn var smekklega skreyttur.
Öll fór samkoman ágætlega fram og var hin myndarlegasta í alla staði. Hafi fulltrúaráðið þökk fyrir forgönguna, og mætti þessi samkoma verða vísir til annara stærri og áhrifameiri í framtíðinni.