Á heimasíðu SÍMEY segir að núna á vorönn 2025 hafi verið haldin 20 námskeið í íslensku sem öðru tungumáli í SÍMEY og hafa tæplega þrjú hundruð nemendur sótt þau. Í lok hvers námskeiðs meta nemendur það frá ýmsum hliðum og er m.a. spurt um mat nemenda á stöðu þeirra að námskeiðinu loknu, hvernig þeir hafi fengið vitneskju um námskeiðið, mat á kennslunni og kennurunum og á hvaða námsþætti vert sé að leggja áherslu á í náminu. Mat nemenda á íslenskunámskeiðunum núna á vorönn hefur verið afar jákvætt, ekki síst er mikil ánægja með kennsluna og kennarana.
Íslenskukennslan í SÍMEY er fjölbreytt – bróðurpartur námskeiða er staðarnámskeið en einnig er boðið upp á vefnámskeið, þar sem nemendur eru út um allt land og dæmi eru um nemendur í útlöndum. Í boði eru staðarnámskeið 1-4 – þ.e. frá grunnnámskeiði 1 upp í getu- eða þyngdarstig 4. Flestir nemendur sækja íslenskunámskeið 1 og 2.
„Það er mjög ánægjulegt að mat á íslenskunámskeiðunum kemur gríðarlega vel út. Nemendur lýsa til dæmis mikilli ánægju með kennarana okkar og hvernig þeir standa að kennslunni, sem kemur okkur ekki á óvart því við höfum á að skipa mjög öflum kennurum sem búa yfir mikill kunnáttu og reynslu. Mikill meirihluti nemenda segir að námskeiðin hafi eflt mjög kunnáttu þeirra í íslensku,“ segir Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir, verkefnastjóri í SÍMEY.
Síðustu íslenskunámskeiðum vorannar lýkur núna um miðjan mánuðinn og þráðurinn verður síðan aftur tekinn upp í ágúst. Nú þegar hefur verið opnað fyrir skráningar á námskeiðin á haustönn – bæði staðar- og vefnámskeið.
Ef rýnt er í niðurstöður námsmats annarinnar kemur í ljós að mikill meirihluti nemenda telur að íslenskunámskeiðin hafi skilað þeim mun betri kunnáttu og stöðu í íslensku. Vitneskju um íslenskunámskeiðin sögðust flestir þátttakendur hafa fengið í gegnum heimasíðu SÍMEY eða frá vinum og fjölskyldu.
Spurningunni um kennarana og kennsluna svöruðu þátttakendur á afar jákvæðan hátt. Eftirfarandi þættir fengu allir mjög háa einkunn: Kennsluhættir kennara, skipulag og undirbúningur kennara, þekking þeirra á viðfangsefninu, hæfni til að miðla efninu og námsefni kennara. En allra hæstu einkunnina gáfu nemendur tengslum við kennarana. Þegar nemendur voru beðnir að leggja mat á hvaða þætti í kennslunni bæri að leggja mesta áherslu á nefndu flestir munnlega tjáningu og samskipti, lestur var í öðru sæti og málfræði í því þriðja.