Alþýðusamband Íslands hefur sent fyrirspurn á öll sveitarfélög landsins um hvernig þau haga ræstingarmálum, hvort þeim sé útvistað og hvort öll réttindi og samningar séu virtir. Þetta kemur fram á ruv.is
Þar segir einnig að ASÍ vill fá svör frá sveitarfélögum landsins um ræstingarmál hjá þeim og hvernig eftirliti með að samningar séu virtir sé háttað. Einnig er óskað eftir svörum frá ríkinu.
Málefni ræstingarfólks hafa verið í umræðunni að undanförnu í tengslum við fréttir af mögulegum kjarasamningsbrotum ræstingarfyrirtækja. ASÍ er að kanna hvernig sveitarfélög landsins standa að þessum málum.
„Við sendum út upplýsingabeiðni í gær á öll sveitarfélög landsins og erum að óska eftir upplýsingum um útvistun ræstistarfa. VIð erum að reyna að finna út umfangið heilt yfir landið og hversu mikið af almannafé er ráðstafað í þessar útvistanir og hvar við erum að sjá hana líka helst,“ segir Karen Ósk Nielsen Björnsdóttir, lögfræðingur hjá ASÍ.
Einnig er spurt hvernig sveitarfélögin hafa unnið útboð á slíkum verkum. Lög veiti rúmar heimildir til virks eftirlits og skoðunar með hvaða fyrirtæki þarna eru, keðjuábyrgð og fleira. Verkalýðshreyfingin hefur verið í sambandi við ríkið varðandi þessi mál. Karen bendir á að ríkið verji nærri þremur milljörðum króna í ræstingar árlega, og nú sé komið að því að kanna hvernig sveitarfélög verji almannafé í það sama.
„Og við viljum held ég sem samfélag að peningarnir séu nýttir á réttan hátt og að mannréttindi og almenn reisn fólks séu virt í því, að við séum ekki að taka þátt í einhverju ósiðlegu. Það eru tækifæri til eftirlits hjá sveitarfélögunum og svo er bara spurning hvort og hvernig þau eru nýtt, vonandi á góðan veg en við vitum ekkert enn sem komið er.“
Lög kveði á um að tryggja eigi að réttindi séu virt í útboðum og eftir að samningar eru komnir á. Fyrir hálfum mánuði gengu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar á fund Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra til ræða málefni ræstingarfólks. Meðal annars hefur pólskt ræstingarfólk haft samband við sendiherra Póllands vegna meintra brota og sendiherrann hafði samband við Starfsgreinasambandið í framhaldinu.
„Við höfum ekki fengið svör nú þegar. Þetta var auðvitað mjög góður fundur og mikill vilji og við vorum að pressa á þau fyrir nokkrum dögum að fá einhver svör af því að við lögðum fram ákveðnar tillögur og sýndum fram á þetta mikla umfang af útvistun. Og auðvitað erum boðin og búin að taka á þessum málaflokki með þeim á góðan hátt. Þannig að við bíðum og svo sem skorum á þau að taka þetta vel og hratt fyrir.“