ASÍ - Umsögn um fjármálaáætlun 2026-2030

Alþýðusamband Íslands hefur skilað inn yfirgripsmikilli umsögn um fjármálaáætlun og fjármálastefnu fyrir árin 2026-2030. Þetta kemur fram á vef ASÍ.

Í áliti ASÍ kemur fram ánægja með áform um að rétta við rekstur ríkissjóðs, en á sama tíma er árétt að ekki sé sama hvaða leið sé farin í þeim efnum. Setja eigi áherslu á að standa vörð um velferð og innviði á slíkri vegferð. Þá er almennt ánægja með jákvæðar skattkerfisbreytingar og áherslur á heilbrigðan vinnumarkað en hafa má efasemdir um róttækar uppstokkanir í bótakerfum.

Rekstri ríkissjóðs stefnt í rétta átt
Þrátt fyrir að meginstefna opinberra fjármála undanfarin ár hafi verið að stöðva skuldasöfnun og hallarekstur hefur ríkissjóður í reynd verið rekinn með halla frá því fyrir heimsfaraldur. Jákvætt er að taka skuli fyrir undirliggjandi hallarekstur ríkissjóðs, sérstaklega í ljósi aukinnar óvissu í efnahagslífinu og heimsmálunum almennt.

Afkoma ríkissjóðs hefur reynst veikari en áætlanir og fjárlög gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir að meginstefnumörkunin sé um margt svipuð nú er gott að nú sé lögð fram fjármálaáætlun án óútfærðra afkomubætandi ráðstafana. Slíkar óútfærðar ráðstafanir hafa numið allt að 40 milljörðum króna á ári í áætlunum undanfarið og hefur ASÍ ítrekað varað við mögulegu bakslagi í kjölfar slíkrar stefnumörkunar sem geti leitt til halla þegar hægir á í efnahagslífinu.

Nýjar leiðir við fjármögnun innviða
Í ljósi þröngrar stöðu ríkisfjármála er mælt fyrir nýjum leiðum í fjármögnun innviða og er þá vísað til svokallaðra PPP verkefna, samstarfi opinberra og einkaaðila. ASÍ setur sig ekki á móti slíkri nálgun, að gefinni þeirri frumforsendu að eignarhald á fjárfestingunni færist alltaf yfir til hins opinbera eftir skilgreindan tíma. Þá þarf einnig að vera skýrt að ráðist sé í arðbær verkefni og skýrt sé að samstarf við einkaaðila skili ábata umfram hefðbundna opinbera fjárfestingu. Fjölmörg dæmi er um að þessi skilyrði séu ekki uppfyllt og að einkaframkvæmdir hafi á endanum leitt til aukins kostnaðar eða verri gæða.

Standa þarf vörð um velferð og innviði
Á tímabili fjármálaáætlunar er stefnt að hlutfallslegum samdrætti ríkisútgjalda úr 31% af vergri landsframleiðslu á þessu ári í rúmlega 29% af VLF árið 2030. Þótt ASÍ styðji áherslu á viðsnúing hallareksturs eiga minni útgjöld þó ekki í sjálfu sér að vera sérstakt markmið. Alþýðusambandið kallar því eftir skýrri forgangsröðun í þágu velferðar og innviða. Ekki megi nýta þá málaflokka sem hagstjórnartæki. “Þar hræða sporin þar sem hagræðingaraðgerðir hins opinbera hafa gjarnan leitt til versnandi þjónustu, verri kjara starfsfólks eða aukins kostnaðar notenda þjónustunnar.”

Húsnæðiskostnaður enn stærsta viðfangsefnið
Verðbólga hefur lækkað úr 6,8% niður í 4,2% frá undirritun kjarasamninga. Sé horft framhjá áhrifum húsnæðiskostnaðar mælist verðbólga 3,2% en aðstæður á húsnæðismarkaði eru enn megindrifkraftur verðbólgu hér á landi. Ástæða er til að fagna áherslu á húsnæðismál í stjórnarsáttmála en á sama tíma má hafa áhyggjur af því hversu erfitt hefur reynst fyrir ríki og sveitarfélög að tryggja nauðsynlega uppbyggingu húsnæðis.

Skattkefisbreytingar til bóta
Á tímabilinu 2013-2019 minnkuðu tekjur ríkisins um 27 milljarða á ári sökum lögfestra skattkerfisbreytinga, sé miðað við árið 2019. Þá eru ótalin áhrif af afnámi auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda, breytingar á tekjuskattkerfinu, lækkun bankaskatts og hækkun frítekjumarks fjármagnstekna svo dæmi séu nefnd. Þannig má velta fyrir sér hvort tekjustofnar standi undir reglulegum útgjöldum hins opinbera, sérstaklega nú þegar hægst hefur á umsvifum í hagkerfinu. ASÍ fagnar því áformum í fjármálaáætlun um styrkingu grunnstoða skattkerfisins, með bættum skattskilum, auknu skatteftirliti, lokun á glufum og færri undanþágum í skattkerfinu.

Þá er boðuð aukin gjaldtaka á greinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Í fjármálaáætlun er slík gjaldtaka boðuð í ferðaþjónustu, sjávarútvegi og fiskeldi en þó með ólíkum hætti eftir atvinnugreinum. ASÍ leggur þó áherslu á að hluti auðlindaarðs verði eftir í þeim byggðum þar sem nýting fer fram.

Uppstokkanir í bótakerfum misgóðar
Alþýðusambandið styður markmið um að bætur almannatrygginga þróist í samræmi við launaþróun og aldrei minna en verðlagsþróun. Margar ástæður eru þó fyrir því að bein tenging fjárhæða við launavísitölu Hagstofunnar sé ekki æskileg og geti skapað misræmi við launastig og tekjuþróun í samfélaginu.

Nokkrar áhyggjur má hafa af fyrirhugaðri niðurfellingu framlags til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða á árinu 2026 komi ekki til lagabreytinga. Jöfnunarframlagið er tilkomið með samkomulagi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í tengslum við endurskoðun kjarasamninga á árinu 2005 vegna vaxandi örorkubyrði sem leggst þyngst á lífeyrissjóði verkafólks innan ASÍ og hefur neikvæð áhrif á ellilífeyri sjóðfélags þeirra.

ASÍ ítrekar áherslu á að samráð sé átt við aðila vinnumarkaðarins varðandi innleiðingu nýs kerfis örorkulífeyris almannatrygginga en með slíku samtali má skoða uppbyggileg tækifæri til rýni á útfærslu og umfangi framlagsins.

Veiking atvinnuleysistrygginga
Ásamt skerðingu á jöfnunarframlagi er í fjármálaáætlun boðað að bótatímabil atvinnuleysistrygginga verði stytt úr 30 mánuðum í 18 mánuði. Gert er ráð fyrir að breytingin spari um 3,5 milljarða í árleg útgjöld. Alþýðusambandið telur gagnrýnivert að ráðist sé í slíkar breytingar á grundvallar afkomutryggingakerfi vinnumarkaðarins að því virðist eingöngu í hagræðingaskyni til að fjármagna nýtt örorkulífeyriskerfi. Ekki er ljóst að raunverulegur sparnaður verði af styttingu bótatímabilsins þar sem engar greiningar liggja fyrir. Það er mat ASÍ að langtímaatvinnuleysi sé betur mætt með virkum vinnumarkaðsaðgerðum og úrræðum sem efla menntun og færni.

Í rökstuðningi hefur verið vísað til þess að bótatímabil séu styttri í nágrannalöndum en í því samhengi má þá nefna að þar er mun meiri fjármunum veitt í virkar vinnumarkaðsaðgerðir. ASÍ tók atvinnuleysistryggingar til umfjöllunar í skýrslunni Íslenskur vinnumarkaður 2019.

Jákvæðar áherslur í vinnumarkaðsmálum
Ástæða er til að fagna sérstaklega áherslum á vinnumarkaðstengd mál, en þar má nefna eflingu heimilda og úrræði vinnustaðaeftirlits, auknu eftirliti með starfsmannaleigum, innleiðingu keðjuábyrgðar í stærri verklegum framkvæmdum og ögfesting refsiákvæða vegna vinnumansals.

Umsögn Alþýðusambands Íslands um fjármálastefnu fyrir árin 2026-2023 má lesa í heild sinni með skýringum á vef Alþingis.