Banna ein­­greiðslur til fé­lags­manna SGS

Síðari blaðsíða tölvupóstsins frá SÍS til framkvæmdastjóra sveitarfélaga, mannauðsstjóra og launaful…
Síðari blaðsíða tölvupóstsins frá SÍS til framkvæmdastjóra sveitarfélaga, mannauðsstjóra og launafulltrúa. Á þeirri fyrri er endurskoðun viðræðuáætlana við önnur stéttarfélög en þau sem eru aðildarfélög SGS.

Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hefur greint sveitarfélögum landsins frá því að þeim sé með öllu óheimilt að greiða starfsmönnum sínum sem eru félagsmenn Starfsgreinasambandsins (SGS) eingreiðslu sem sambandið hefur farið fram á. Þetta kemur fram í tölvupósti sem SÍS sendi á sveitarfélögin og Fréttablaðið hefur undir höndunum.

Aðrir starfsmenn sveitarfélaganna, sem ekki eru félagsmenn í SGS, fá hins vegar eingreiðsluna sem fylgir endurskoðun viðræðuáætlana í núverandi kjaradeilum. SGS hefur þannig vísað kjaradeilunum til ríkissáttasemjara og því segir SÍS að viðræðuáætlun þess væri þar með fallin úr gildi.

SÍS hefur nú sent ítrekunarpóst á öll sveitarfélögin þar sem þeim er greint frá því að þeim sé „óheimilt með öllu“ að greiða þessum starfsmönnum sínum umræddar eingreiðslur. Var þetta gert í kjölfar þess að SGS leitaði til sveitarfélaganna sjálfra eftir að SÍS neitaði að ræða slíka greiðslu við þau. Vísar sambandið þá í fullnaðarumboð sitt til kjarasamningagerðar fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu.

„Mér finnst þetta vera ótrúleg ósvífni hjá þeim,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður SGS og Einingar-Iðju í samtali við Fréttablaðið. „Að þeir skuli senda svona bréf frá sér þar sem þeir banna kjörnum sveitarstjórnarmönnum að taka sjálfstæðar ákvarðanir eins og þeir séu bara undir ægivaldi.“ Hann segir þá að það sé skrýtið að samtök sem séu stofnuð fyrir sveitarfélögin með hagsmuni þeirra í huga skuli senda sveitarfélögunum skilaboð af þessu tagi. „Þetta eru bara hálfgerðar hótanir, að það megi alls ekki verða við neinu því sem við vorum að fara fram á við þau,“ útskýrir hann.

„Ég trúi því ekki að sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið ætli að láta múlbinda sig svona af samtökunum,“ segir Björn að lokum vongóður um að einhver sveitarfélög sjái sér fært að greiða greiðslurnar þrátt fyrir skilaboð SÍS.