Fjölbreytt starfsemi Orlofssjóðs

Þannig á Eining-Iðja allmörg orlofshús á Illugastöðum í Fnjóskadal, sem notið hafa mikilla vinsælda.…
Þannig á Eining-Iðja allmörg orlofshús á Illugastöðum í Fnjóskadal, sem notið hafa mikilla vinsælda. Þar voru fyrstu húsin reist á sjöunda áratugnum og hafa notið vinsælda frá byrjun. Stöðug uppbygging hefur verið í gangi í gegnum tíðina á Illugastöðum og öll húsin á svæðinu hafa verið endurnýjuð og eru vel búin. Með tilkomu hitaveitu gjörbreyttist nýtingin og eru þau nú leigð út allan ársins hring.

Nú þegar orlofstímabilið er svo að segja í hámarki, er ekki úr vegi að rifja lítillega upp baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir rétti launafólks til orlofs. Stundum er því haldið fram að hægt gangi að ná fram réttindum, en þegar sagan er skoðuð sést oft á tíðum að mikið hefur áunnist. Á þessu ári eru 77 ár síðan allt launafólk á Íslandi öðlaðist rétt til orlofs samkvæmt lögum sem tóku gildi 1942. Áður hafði verkalýðshreyfingin samið við atvinnurekendur um orlof, segja má að lögin hafi verið staðfesting á þeim samningi.

Samningurinn árið 1942 gerði ráð fyrir 12 daga sumarleyfi, auk þess sem atvinnurekendur samþykktu að greiða ákveðið hlutfall af launum í sérstaka orlofssjóði verkafólks. Þetta var mikill áfangasigur, 12 daga sumarleyfi.

Í dag – 77 árum síðar – er lágmarksorlof 24 virkir dagar og við bætast ýmis réttindi sem samið hefur verið um í gegnum tíðina. Þannig hafa framlög vinnuveitenda í orlofssjóði hækkað umtalsvert á þessu tímabili, sem gert hefur það að verkum að sjóðirnir eru nokkuð burðugir. Orlofsuppbót, sem er bónusgreiðsla, er greidd út í byrjun sumars. Þessi liður kjarasamninga hefur hækkað á undanförnum árum. Veikist launþegi í orlofi á viðkomandi rétt á uppbótarorlofi, samkvæmt sérstökum reglum, svo annað dæmi sé tekið. Með þessari upprifjun sést að verulega hefur áunnist í orlofsmálum verkafólks frá því fyrst var samið um orlof. 

Orlofshús
Fljótlega eftir að samið var um orlof fór verkalýðshreyfingin að huga að orlofsbyggðum og öðrum félagslegum framförum. Með orlofsbyggðunum gafst fólki kostur á að dvelja í bústað og njóta hvíldar í fallegu íslensku umhverfi. Ekki þótti nóg að eiga lögbundið frí á launum. Verkalýðshreyfingin hefur byggt upp víða um land orlofsbyggðir, þar sem félagsmönnum gefst tækifæri á að leigja sumarhús á á sanngjörnu verði.

Þannig á Eining-Iðja allmörg orlofshús á Illugastöðum í Fnjóskadal, sem notið hafa mikilla vinsælda. Þar voru fyrstu húsin reist á sjöunda áratugnum og hafa notið vinsælda frá byrjun. Stöðug uppbygging hefur verið í gangi í gegnum tíðina á Illugastöðum og öll húsin á svæðinu hafa verið endurnýjuð og eru vel búin. Með tilkomu hitaveitu gjörbreyttist nýtingin og eru þau nú leigð út allan ársins hring.

Félagið leigir út nokkur húsanna á Illugastöðum til annarra stéttarfélaga yfir sumarið í skiptum fyrir orlofshús annars staðar á landinu. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og fallið í góðan jarðveg meðal félagsmanna.

Eining-Iðja á eða hefur á leigu orlofshús eða orlofsíbúðir á fimmtán stöðum á landinu fyrir félagsmenn sína, þessi fjöldi sýnir vel að orlofssjóðurinn hefur eflst ágætlega í tímanna rás. Í sumar er félagið aftur með í boði sumarhús á Spáni, þessi nýlunda hefur mælst vel fyrir meðal félagsmanna. 

Fleiri kostir í boði
Eins og lög gera ráð fyrir, henta orlofshús eða orlofsíbúðir ekki öllum. Undanfarin ár hefur félagið haft í boði styrki sem kallast „Orlof að eigin vali“ og hafa þessir styrkir verið vel nýttir af félagsmönnum. Á þessu ári mun félagið verja allt að 7,5 milljónum króna í þennan valkost. Styrkupphæð er 25.000 krónur, sem félagsmenn geta notað til að greiða fyrir leigu á orlofshúsi – ekki þeim sem eru í eigu félagsins – eða ferðavögnum, gistingu á hóteli, flugfari eða allt eftir óskum hvers og eins.

Á skrifstofum félagsins geta félagsmenn keypt niðurgreidda gistimiða á nokkur hótel og þar er jafnframt hægt að kaupa Útilegukortið og Veiðikortið.

Ferðanefnd Einingar-Iðju skipuleggur ferðir á hverju ári, bæði innanlands og utan. Á undanförnum árum hefur verið boðið upp á þrjár ferðir, innanlands og utanlands auk dagsferðar fyrir eldri félagsmenn. Þessar ferðir hafa notið vinsælda og verið vel sóttar.

Allar upplýsingar um þá fjölmörgu kosti sem standa félagsmönnum til boða eru kynntar á vef Einingar-Iðju

Ég hvet alla félagsmenn til að kynna sér þessi mál, starfsfólk félagsins er ávallt reiðubúið til aðstoðar. 

Gleðilegt sumar
Tilgangur Orlofssjóðs Einingar-Iðju er að auðvelda fólki að njóta orlofsdvalar. Sjóðnum er ætlað að ná þessum markmiðum með því að kaupa eða leigja orlofshús eða íbúðir gegn hagkvæmu gjaldi félagsmanna. Sömuleiðis er sjóðnum ætlað að skipuleggja orlofsferðir,  taka þátt í kostnaði þeirra og standa fyrir kynningar- og fræðslustarfi í sambandi við nýtingu orlofs.

Undirritaður er ekki í vafa um að starfsemi orlofssjóðs hefur eflt félagið til muna og aukið samheldni félagsmanna. Það er jafnan tilhlökkunarefni allra þegar sumarleyfistíminn nálgast, þá undirbýr fjölskyldan langþráð frí og markmiðið er að eiga saman góðar og notalegar stundir.

Fyrir hönd Einingar-Iðju sendi ég félagsmönnum bestu óskir um gott og ánægjulegt sumarfrí. 

Björn Snæbjörnsson formaður.