Forseti ASÍ - viðbrögð stjórnvalda við COVID óuppgerð

Forseti Alþýðusambands Íslands segir að stjórnvöld hafi tryggt fjármagnseigendum og fyrirtækjum miklar fjárhæðir á tímum Covid-faraldursins. Launafólk hafi haldið samfélaginu gangandi og að gera þurfi upp viðbrögð og ákvarðanir stjórnvalda.

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að eftir eigi að fara í uppgjör við ákvarðanir og viðbrögð stjórnvalda í COVID-19 faraldrinum. Launafólk hafi haldið samfélaginu gangandi, en stjórnvöld hafi séð til þess að óheyrilegar upphæðir hafi runnið úr ríkissjóði til fjármagnseigenda og fyrirtækja.

Þetta kemur fram í ávarpi Finnbjörns sem hann birtir á vef ASÍ í gær á baráttudegi launafólks, 1. maí. Hann segir stærstu verkefni verkalýðshreyfingarinnar í dag vera að leysa húsnæðisvandann, takast á við verðbólgu, vaxandi ójöfnuð og misskiptingu auðs, og loks að takast á við aukningu verktakavinnu og ótryggra starfa, þar sem grafið er undan réttindum launafólks.

Hann lýkur ávarpinu með þeim orðum að hópar láglaunafólks búi við kröpp kjör hér á landi þrátt fyrir langan vinnudag.

„Verðbólga, dýrtíð og stjórnlaus fjárfestingamarkaður, sem áður var húsnæðismarkaður almennings, hefur bitnað af fullum þunga á þessu fólki sem í orðsins fyllstu merkingu heldur samfélaginu gangandi í þágu okkar allra,“ segir í ávarpinu.

Ávarpið í heild má lesa hér fyrir neðan.

Við sköpum verðmætin – Ávarp forseta ASÍ á 1. maí.

Ágætu félagar og landsmenn allir.

Ég færi ykkur kveðju frá Alþýðusambandi Íslands á þessum baráttudegi launafólks.

Að þessu sinni fögnum við 1. maí undir yfirskriftinni „Við sköpum verðmætin“.

Þetta kunna að virðast augljós sannindi en því miður er það svo að þessari staðreynd þarf jafnan að halda á lofti gagnvart ráðandi öflum í samfélaginu. Án vinnandi fólks verða engin verðmæti sköpuð og engum hjólum atvinnulífs snúið. Verðmætasköpun og atvinnulíf eru grundvallarforsendur samfélags og velferðar.

Þetta kom berlega í ljós í COVID-faraldrinum þegar launafólk hélt samfélaginu gangandi, iðulega við erfiðar aðstæður. Á sama tíma sáu stjórnvöld til þess að óheyrilegar upphæðir runnu úr ríkissjóði til fjármagnseigenda og fyrirtækja sem upplifðu réttnefnt „góðæri“.

Því miður hefur ekki farið fram nauðsynlegt og hlutlaust uppgjör við ákvarðanir og viðbrögð stjórnvalda í faraldrinum ólíkt því sem við á um mörg okkar nágrannaríki. Víða hefur slík skoðun leitt í ljós viðurkenningu á því að stjórnvöld hafi farið offari í efnahagslegum viðbrögðum sínum og valdið þannig ómetanlegum skaða.

Þann skaða ber almenningur.

Barátta verkalýðshreyfingarinnar er vissulega pólitísk en hún er bundin við það eitt að standa vörð um almannahagsmuni og vinna að bættum kjörum og afkomu fólksins í landinu. Þess vegna hlýtur verkalýðshreyfingin jafnan að hafa skoðun á framgöngu ríkisstjórna og ráðmanna; fagna því sem vel er gert í þágu almennings og þjóðarhags en jafnframt fordæma sérhagsmunagæslu, fúsk og illa grundaðar ákvarðanir þeirra sem telja sig eina vita.

Í dag fögnum við samstöðunni sem hefur reynst forsenda allrar okkar baráttu og allra þeirra sigra sem unnist hafa. Verkalýðshreyfingin hefur verið mikilvægasta afl framfara og breytinga í landinu. Þeirri sögu er sjálfsagt að halda á lofti, ekki síst gagnvart yngri kynslóðinni, sem tekur þeim réttindum og velferð sem áunnist hefur sem sjálfgefnum hlut. Um leið hljótum við á þessum baráttudegi okkar að horfa til brýnustu verkefna okkar í samfélagi sem lengstum hefur verið kennt við velferð og lýðræði.

Stærstu verkefni okkar nú eru:

  • Húsnæðisvandi, og þá sérstaklega tekjulágs fólks og ungs fólks.
  • Verðbólga, sem étur upp kaupmátt og er viðvarandi verkefni.
  • Vaxandi ójöfnuður og misskipting auðs – þar með taldar greiðslur í sameiginlega sjóði til að halda samfélaginu gangandi.
  • Og ekki síst – aukning verktakavinnu og ótryggra starfa – svokallaðra gigg-starfa sem grafa undan réttindum launafólks.

Atlaga að siðuðu samfélagi

Hin blinda fjármagnshyggja þekkir enga mælikvarða aðra en hagkvæmni og hámörkun arðs. Það er þessi stefna sem gerir að verkum að hér á landi og  víðast hvar á Vesturlöndum sinnir fólk nú störfum þar sem það nýtur hvorki boðlegra launa né minnstu réttinda.

Gigg-hagkerfið er atlaga auðhyggjunnar að siðuðu samfélagi. Markmið þessarar grímulausu niðurrifsstefnu er að brjóta á bak aftur samfélagsgildin og þar með réttindin og mannlega reisn til að arðsemiskröfur fjármagnsafla gangi óhindraðar fram.

Við þekkjum þá kennisetningu fjármagnsaflanna að virða beri sjálfstæðan samningsrétt einstaklinga og því komi það samfélaginu einfaldlega ekkert við ef fólk er tilbúið til að stunda þrælavinnu fyrir lúsarlaun.

Þessi nálgun er andstyggileg fyrir margar sakir; í fyrsta lagi er þessi samningsréttur einstaklingsins ekki á jafnréttisgrunni – viðkomandi neyðist til að afsala sér réttindum sínum og á í raun allt sitt undir þeim atvinnurekanda sem þetta stundar og virðir hann einskis og hefur engan áhuga á kjörum hans og velferð.

Í öðru lagi er þessi staðhæfing  – um frelsi fólks til að láta traðka á lífi sínu og réttindum sökum veikrar samningsstöðu – bein ógn við alla hina því fjármagnsöflin ganga jafnan á lagið um leið og þau finna minnkandi mótstöðu. Um það eru fjölmörg dæmi. 

Í þriðja lagi hvílir þessi hugmyndafræði beinlínis á þeirri forsendu að lífsgæði og réttindi annars fólks séu afstæð við þarfir markaðarins hverju sinni.

Sömu lögmál gilda þegar atvinnurekendur stofna sín eigin stéttarfélög og semja við sjálfa sig um laun, kjör og réttindi eins og þeim hentar og þvinga síðan starfsmenn sína í viðkomandi félög með mun lakari kjör og réttindi en lágmarkskjör kveða á um.

Mín skoðun er sú að við getum undir engum kringumstæðum samþykkt þessa mannfjandsamlegu hugmyndafræði og að það sé samfélagsleg skylda okkar að berjast gegn henni hvar sem hún birtist.

Hverjum gagnast markaðsvæðing orkunnar?

Ágætu félagar.

Við erum þátttakendur í hugmyndafræðilegri baráttu um sjálfa samfélagskipanina og þjóðfélagssáttmálann. Við megum ekki missa sjónar á þessu grundvallaratriði.

Skýrt dæmi um viðleitni fjármagnsaflanna til að breyta ýmsum undirstöðum samfélags okkar birtist í markaðsvæðingu orkunnar sem hófst árið 2003 hér á landi í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins (ESB).

Á undanliðnum vikum og mánuðum hafa ítrekað birst upplýsingar um mikla hækkun á raforkuverði og dæmi eru um allt að 37% hækkun á kílówattstund að því er fram kom í könnun verðlagseftirlits Alþýðusambandsins. Við stefnum hraðbyri í átt að markaðshagkerfi raforkunnar eins og það þekkist á meginlandi Evrópu með tilheyrandi milliliðum og orkukauphöllum.  Þetta gerist þrátt fyrir að íslenska raforkukerfið sé sjálfstætt og öðrum ótengt. Þetta fyrirkomulag er mikil og vaxandi ógn við hagsmuni almennings á Íslandi.  

Með tilliti til þessa verða stjórnvöld að svara eftirfarandi spurningu: Hvernig hefur sú markaðsvæðing sem þegar hefur farið fram á sviði orkumála komið þjóðinni til góða?

Og í framhaldinu – dettur einhverjum í hug að þessar breytingar séu gerðar til að bæta hag almennings í þessu landi?  

Við hljótum að krefja nýja ríkisstjórn um rökstuðning ætli hún að halda áfram á sömu braut. Alþýðusambandið telur ljóst að fyrirliggjandi frumvarpi um breytingu á raforkulögum tryggi hvorki að raforka verði á viðráðanlegu verði né að almenningur og smærri fyrirtæki lendi ekki í verðsamkeppni við stórnotendur raforku.

Við höfum jafnframt lýst því yfir að óskiljanlegt sé að stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu íslensks raforkumarkaðar við mótun lagaumgjarðar.

Sterk sérhagsmunaöfl hér á landi ásælast orkuna, landið, vatnið, vindinn, jarðvarmann. Við eigum eftir að sjá harðnandi átök um þessar auðlindir þjóðarinnar í náinni framtíð og mikilvægt er að verkalýðshreyfingin og önnur samtök um almannaheill haldi vöku sinni og standi saman í þeirri baráttu.  

Kæru félagar.

„Við sköpum verðmætin“.  Þessari staðreynd verður ekki mótmælt. Engu að síður búa hópar láglaunafólks við kröpp kjör hér á landi þrátt fyrir langan vinnudag. Verðbólga, dýrtíð og stjórnlaus fjárfestingamarkaður, sem áður var húsnæðismarkaður almennings hefur bitnað af fullum þunga á þessu fólki sem í orðsins fyllstu merkingu heldur samfélaginu gangandi í þágu okkar allra.

Við skulum hugsa til þeirra þegar við fögnum 1. maí og einsetja okkur að gefa hvergi eftir í baráttu okkar fyrir réttlæti, velferð og almannahagsmunum.

Fram til sigurs!