Gallup könnunin – fjórða iðnbyltingin

Undanfarin ár hefur Eining-Iðja fengið Gallup til að gera umfangsmiklar viðhorfs- og kjarakannanir meðal félagsmanna. Þessar kannanir eru sambærilegar könnunum sem nokkur önnur félög innan verkalýðshreyfingarinnar hafa látið gera. Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar ársins.

Í könnuninni voru margir þættir kannaðir, m.a. var spurt um fjórðu iðnbyltingu til að kanna að hve miklu leyti fólk er meðvitað um tæknibreytingar framundan. Að hvaða marki fólk er að undirbúa sig undir tæknibreytingar og að hvaða marki er fólk tilbúið að bregðast við þeim. Hve miklar breytingar hafa þegar orðið og í hvaða mæli hefur fólk brugðist við þeim. 

  • 29,7% telja að starf sitt eigi eftir að taka miklum breytingum á næstu fimm árum, 36,9% telja að breytingar verði litlar. Miðað við 34% og 35,2% í fyrra.
  • Þegar spurt var hvort viðkomandi finnist hann að hafa miklu eða litlu þörf fyrir fræðslu, þjálfun eða endurmenntun til þess að takast á við þær tæknibreytingar sem eru í vændum sögðu 35,9% mikla, en 26,7% litla þörf.
  • 25,8% sögðu að starf þeirra hefði tekið miklum breytingum á síðustu fimm árum vegna tæknibreytinga, en 40,6% litlum.
  • Þegar spurt var hvort viðkomandi finnist hann að miklu eða litlu leyti hafa fengið þá fræðslu, þjálfun eða endurmenntun til þess að takast á við þær tæknibreytingar sem þegar hafa orðið á starfi þínu sögðu 37,1% að mjög miklu leyti, en 15,8% að mjög litlu leyti. 

Niðurstöðurnar eru afar gagnlegar fyrir félagið því markmiðið er alltaf að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör og bættan aðbúnað við vinnu. Einnig þarf að gæta þess að áunnin réttindi séu virt. 

Stjórn félagins vill þakka öllum þeim sem þátt tóku í launakönnun félagsins í ár.