Góð þátttaka í 1. maí hátíðarhöldum

Fjölmenni safnaðist saman  á Akureyri í dag til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í tilefni af 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Einnig var góð mæting í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð. 

Kjörorð dagsins eru "Jöfnum kjörin – samfélag fyrir alla." Gengið var frá Alþýðuhúsinu gegnum miðbæinn að Ráðhústorgi og svo niður í Menningarhúsið HOF, þar sem fram fór hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð og Drífa Snædal, forseti ASÍ, flutti aðalræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði. Örn Smári Jónsson söng frumsamin lög og Svenni Þór og Regína Ósk sungu lög úr myndinni A star is born. Hátíðardagskrá lauk með sameiginlegum söng á Maístjörnunni undir stjórn Svenna og Regínu. Að dagskrá lokinni var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðaborð í Menningarhúsinu HOFI. 

Jóhann sagði m.a. í ávarpinu að „hlutverk verkalýðshreyfingar í dag er, auk hefðbundinnar kjarabaráttu er að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og jafna tækifæri launafólks og alls almennings til að geta lifað mannsæmandi lífi þar sem jafnrétti kynja og tækifæra ríkir og jafnt aðgengi allra sé að menntun, heilbrigðiskerfi, lyfjum og að húsnæði standi hverjum og einum til boða á viðráðanlegum kostnaði út frá þeirra stöðu. Þetta er sannarlega markmið hreyfingarinnar og í vinnslu á hverjum tíma. Við höfum náð árangri en eigum samt langt í land víða.“ Ávarpið í heild má lesa hér fyrir neðan.  

Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð 2019

Kæru félagar fyrir hönd stéttarfélaganna á Akureyri Akureyri býð ég ykkur velkominn á þessa hátíðardagskrá. 

Þetta árið hefur Félag málmiðnaðarmanna Akureyri verið falin forsjá að þessum baráttudegi okkar ég heiti Jóhann Rúnar Sigurðsson og er formaður þess félags. 

Í dag 1. maí á hátíðs- og baráttudegi verkalýðshreyfingarinnar komum við saman til að líta yfir farinn veg. Við komum líka saman til að horfa fram á veginn, til að velta fyrir okkur - hver næstu verkefni okkar verða.  

Kjörorð dagsins í dag er Jöfnum kjörin – Samfélag fyrir alla en hvað þýðir það á mannamáli.  

Í mínum huga merkir þetta að við eigum öll skilið jöfn tækifæri til að geta lifað mannsæmandi lífi og að enginn eigi að hafa laun undir framfærsluviðmiðum sem samfélagið hefur reiknað út. Þetta viðmið á einnig að gilda um laun aldraðra og öryrkja. 

Framfærsluviðmið sem nú er upp gefið hjá ríkinu er talsvert ofar en útgreidd lágmarkslaun og er án kostnaðar við húsnæði sem skekkir enn myndina gagnvart lágmarkslaununum. 

Þeir sem svo leggja á sig 4 ára menntun eru einnig þó nokkra stund að komast upp fyrir framfærsluviðmiðið í útgreiddum launum og sérstaklega þegar húsnæðisliðnum og þeim kostnaði sem því fylgir er bætt við. 

Hvar erum við stödd í dag - erum við sátt. Mín skoðun er nei ekki á meðan að framfærsluviðmið ríkisins eru hærri en útgreidd laun þá getum við ekki verið sátt. 

Stilla þarf þjóðfélagið af og þeir samningar sem hluti af félögunum innan ASÍ hafa samþykkt gætu verið tímamótasamningar þ.e.a.s. ef að ríkið stendur við sinn hlut þá gætu þessir samningar verið þróun í þá átt að ná framfærlsuviðmiðinu ásamt því að hægt verði að vinna að bættum lífskjörum fyrir alla og er ég þá sérstaklega að tala um þá sem minnst mega sín í þessum samningum og eru með lægstu launin og ekki má gleyma öldruðum og öryrkjum og þær ósanngjörnu skerðingar sem þessir hópar þurfa að lifa við. 

Hlutverk verkalýðshreyfingar í dag er, auk hefðbundinnar kjarabaráttu er að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og jafna tækifæri launafólks og alls almennings til að geta lifað mannsæmandi lífi þar sem jafnrétti kynja og tækifæra ríkir og jafnt aðgengi allra sé að menntun, heilbrigðiskerfi, lyfjum og að húsnæði standi hverjum og einum til boða á viðráðanlegum kostnaði út frá þeirra stöðu. Þetta er sannarlega markmið hreyfingarinnar og í vinnslu á hverjum tíma. Við höfum náð árangri en eigum samt langt í land víða. 

Kæru félagar þetta er barátta sem seint verður unnin því að markmið hennar breytast sífellt og á meðan að atvinnurekendur og ríksstjórnir leggjast ekki á árarnar af fullum þunga með okkur þá nást þessi takmörk ekki. 

Við erum ekki ein við samningaborðið og margt sem við viljum gera betur í hverjum samningum fyrir sig. Þetta eru samt sigrar sem við sjáum með mismunandi augum. Þau réttindi sem við höfum í dag eru tilkomin eftir rúmlega 100 ára baráttu því skulum við ekki gleyma og margir horfa til okkar öfundaraugum á því fyrirkomulagi sem við höfum er lítur að stéttarfélagsaðild.   

Ég sagði áðan að það gætu verið breytingar á því hvernig samningar verða gerðir í framtíðinni með þeim samningum sem  voru undirritaðir af hluta vinnumarkaðarins á dögunum og vona ég það innilega. 

Það er nú einu sinni þannig að enginn getur án annars verið, við launþegar þurfum á þjónustu ríkisins að halda sem og launa frá atvinnurekendum en atvinnurekendur gætu ekki verið til án okkar. Við erum þeirra stærsti viðskipavinur hvort sem það eru vörur eða þjónusta og eins má segja um rekstur ríkisins hann er undir okkur kominn. 

Það er því löngu orðið tímabært að við hugsum heildstætt og tökum upp bættari og sameiginlegri vinnubrögð í kjarasamningum til framtíðar. Nú í þessum hófsömu kjarasamningum  óska ég eftir því að aðilar standi við þau loforð sem þeir gefi og virði. 

Atvinnurekendur mega ekki setja óábyrgar hækkanir á vörur umfram það sem eðlilegt er, slíkar hækkanir munu leiða til verðbólgu sem vegur að grundvelli kjarasamninga. 

Atvinnurekendur verða að leita leiða til að hagræða í rekstri án þess að velta því á launþegann og ríkið verður að standa við sín loforð  til tilbreytingar og það væri líklega það mikilvægasta við þann samning sem undirritaður var á dögunum af hluta vinnumarkaðarins. 

Í dag ætti enginn að þurfa að berjast fyrir mannsæmandi launum. Það ætti að vera sjálfgefið í skiptum fyrir átta tíma vinnudag. 

Undanfarið hefur hefur verið mikið í umræðunni um þátttökuleysi í kosningum og áhugaleysi ungu kynslóðarinnar á réttindum sínum en ég tel að með því að gera stéttarfélags og fjármálalæsi að skyldufræðum í grunnskóla þá værum við að búa til upplýstara og hæfara fólk í framtíðinna. Fólk sem mun hugsa öðrvísi en við gerum í dag.  

En góðir félagar  verkefni okkar er að halda áfram að standa vörð um sjálfsögð mannréttindi. Markmiðin eru háleit en raunhæf. Lærum af fortíðinni hvort sem það felur í sér að læra af mistökunum eða horfa til þess sem reynst hefur vel. 

Flestir hljóta að samþykkja að það séu algild sannindi

að manneskjur séu óendanlega mikils virði, alveg óháð formlegu vinnuframlagi eða kyni; hvort sem við erum launafólk, atvinnulaus, verktakar, öryrkjar, eigendur fyrirtækja eða á ellilífeyri. 

Allt sem dregur lífsandan á skilið virðingu, án tillits til efnahags eða árangurs á tilteknum sviðum. Við erum öll jafn mikilvæg í samfélaginu. 

Verklýðsfélögin eru samtök ykkar og þið eruð grasrótin og þeim mun virkari sem hún er    þeim mun betur gengur okkur og aðeins þannig getum við nálgumst það markmið að geta lifað mannsæmandi lífi af þeim launum sem við höfum hvert og eitt okkar.

Valdið er ætíð í ykkar höndum og aðeins þannig byggjum við saman betra samfélag. Við erum í vinnu fyrir ykkur ekki öfugt.

Til hamingju með baráttudaginn 1. maí.