Hvers vegna 1. maí?

Allt frá árinu 1860 höfðu samtök verkamanna í Bandaríkjunum barist fyrir 8 stunda vinnudegi og þegar American Federation of Labour var stofnað 1886 var þessi krafa sett á oddinn. Þann 1. maí árið 1890 var efnt til allsherjarvinnustöðvunar til að knýja fram viðurkenningu á þessari kröfu.
Kröfur amerísku verkamannanna urðu til þess að á alþjóðaráðstefnu verkamanna í París árið 1889 var ákveðið að gera 1. maí að sameiginlegum kröfudegi verkalýðsins um allan heim.
Fyrsta kröfugangan á Íslandi var gengin árið 1923, í Reykjavík, þessi dagur varð þó ekki lögskipaður frídagur fyrr en árið 1966. Á Akureyri var 1. maí fyrst haldinn hátíðlegur árið 1925. Kröfurnar sem letraðar voru á kröfuspjöldin í þessari fyrstu kröfugöngu Íslendinga voru af ýmsum toga, svo sem:

  • Framleiðslutækin í þjóðareign!
  • Enga skatta á þurftarlaun!
  • Enga helgidagavinnu!
  • Engar kjallarakompur!
  • Fullnægjandi alþýðutryggingar!
  • Engan réttindamissi vegna fátæktar!
  • Enga næturvinnu!
  • Holla mannabústaði!

Barátta og samstaða launafólks hefur skilað okkur fram á veg með ýmsu móti, til dæmis fært okkur almannatryggingar, 40 stunda vinnuviku, atvinnuleysistryggingar, lög um lífeyrissjóðina, um veikindarétt og sjúkrasjóði, um orlof, jafnréttislögin
og margt fleira mætti telja.
Þrátt fyrir þennan árangur er margt sem þarf að bæta og því þurfum við sífellt að halda vöku okkar.

Þess vegna göngum við kröfugöngu þann 1. maí!