Saga 1. maí

Í sögu Alþýðusambandsins er mikill fróðleikur og er þar m.a. fjallað um sögu 1. maí, alþjóðlegs baráttudags launafólks. Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur er höfundur verksins sem er í tveimur bindum.

Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, var haldinn hátíðlegur hér á landi í fyrsta sinn árið 1923 með kröfugöngu, en áður höfðu hinir róttækustu þó haldið „innisamkomur“ til þess að minnast þessa dags og rússneska byltingardagsins, 7. nóvember.Upphaf þess að 1. maí var gerður að alþjóðlegum baráttudegi verkafólks má rekja til Bandaríkjanna og var tilefnið krafan um átta stunda vinnudag sem American Federation of Labour hafði forgöngu um að setja á oddinn árið 1886, og varð 1. maí táknrænn fyrir þá baráttu. Á fyrsta þingi Annars alþjóðasambandsins sem haldið var í París 1889, á 100 ára afmæli frönsku byltingarinnar, var ákveðið að gera kröfuna um átta stunda vinnudag að helstu kröfu verkafólks á alþjóðlegum baráttudegi, 1. maí. Þegar árið eftir voru haldnar kröfugöngur 1. maí víða í Evrópu og Norður-Ameríku til þess að leggja áherslu á kröfuna um átta stunda vinnudag.

Árið 1889 var einnig ákveðið á þingi Annars alþjóðasambandsins að rauði fáninn skyldi verða tákn fyrir baráttu verkamanna og sameiningarmerki þeirra, en rauði fáninn hafði einmitt verið tákn byltingarsinna í febrúarbyltingunni í Frakklandi árið 1848 og síðar tákn Parísarkommúnunnar 1871. Á fyrri hluta þriðja áratugarins var farið að nota rauða fánann á fundum Alþýðusambandsins og þá varð einnig til fáni og merki sambandsins, rauður fáni með þremur örvum sem voru tákn frelsis, jafnréttis og bræðralags.

Íslensk verkalýðshreyfing lét fyrst að sér kveða á 1. maí 1923. Hátíðahöldin í Reykjavík voru skipulögð af nefnd á vegum fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna. Formælendur þess munu m.a. hafa verið Ólafur Friðriksson og Hendrik Ottósson og voru þeir félagar skipaðir í undirbúningsnefnd auk Þuríðar Friðriksdóttur og fleiri félaga. Við ramman reip var að draga því að 1. maí 1923 var virkur dagur og fólk þurfti að taka sér frí úr vinnu ef það vildi taka þátt. Hendrik skrifaði brýningargrein í Alþýðublaðið og erindrekar fóru um til þess að safna saman fólki; tókst það „furðanlega … þrátt fyrir hótanir og illyrði sumra verkstjóra. … Nokkrir danskir og sænskir smiðir, sem unnu í Hamri neituðu afdráttarlaust að vinna 1. maí. Það væri ekki siður í löndum þeirra“. Einn „erindrekanna“ sem stóð í að fá fólk í gönguna var móðir Hendriks, Carolíne Siemsen, en hún fór um og skoraði á meðlimi verkakvennafélagsins að hætta að vinna á hádegi og taka þátt í kröfugöngunni.

Sumar kröfurnar í göngunni 1923 eru gamalkunnar, t.d. krafan um að „þurftarlaun“ ættu að vera skattlaus. Aðrar kröfur voru tímanna tákn, t.d. krafan um algert áfengisbann. Þegar þessi ganga var farin var ár liðið frá því að heimilað var að selja Spánarvín í landinu eftir nokkurra ára algert áfengisbann en ASÍ vildi hafa algert bann áfram. Einnig var krafist réttlátrar kjördæmaskipunar, settar fram kröfur um bann við helgidagavinnu og næturvinnu, engar kjallarakompur samþykktar, bæjarlandið skyldi ræktað og atvinnubætur greiddar gegn atvinnuleysi. Kröfur voru um að framleiðslutæki ættu að verða þjóðareign en þó má ljóst vera að kröfurnar voru hvergi nærri eins róttækar og tíðkaðist í mörgum nágrannalöndum Íslands á þessum tíma. Hér voru engir byltingarseggir á ferð.

 Síðar áttu 1. maí-göngur eftir að verða margbrotnari. Auk rauðra fána báru fulltrúar einstakra stéttarfélaga merki sín og fána, til aðgreiningar frá öðrum hópum.