Ungir leiðtogar

Ólafur og Hafdís stödd í húsakynnum ITUC (International Trade Union Confederation) í morgun þar sem …
Ólafur og Hafdís stödd í húsakynnum ITUC (International Trade Union Confederation) í morgun þar sem einblínt var á vel heppnaðar herferðir þeirra

Núna eru tveir félagsmenn, þau Hafdís Erna Ásbjarnardóttir og Ólafur Ólafsson, stödd í Brussel á námskeiði sem ASÍ stendur fyrir. Námskeiðið kallaðist „Ungir leiðtogar,“ en eins og nafnið ber með sér þá er það ætlað ungu fólki í verkalýðshreyfingunni. Markmið þess er að fræða þátttakendur um verkalýðshreyfinguna og efla ungt fólk sem leiðtoga, hvort sem er á vinnustaðnum eða á breiðari vettvangi. Námskeiðið er sniðið að ungum félögum í verkalýðshreyfingunni; trúnaðarmönnum, starfsmönnum stéttarfélaga og ungu fólki í trúnaðarráðum. 

Fyrstu tvær loturnar, sem stóðu yfir í tvo daga, fóru fram í Reykjavík í mars og apríl. Þriðja lotan stendur yfir í fjóra daga og fer nú fram í Brussel. Farið verður í heimsókn til ETUC (Evrópsku verkalýðshreyfingarinnar) og ungliðaþjálfarar frá ETUI (fræðslumiðstöð ETUC) munu fræða nemendur um áskoranir ungs fólks á evrópskum vinnumarkaði þar sem áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar eru farnar að hafa áhrif á störf. Dæmi eru áhrif stafræna hagkerfisins, hátt atvinnuleysi ungmenna og ótrygg atvinna, og jaðarsetning ungs fólks á vinnumarkaði. Jafnframt verður tekið hús á ITUC (International Trade Union Confederation) þar sem einblínt verður á vel heppnaðar herferðir þeirra. Stærstu heildarsamtök launafólks í Belgíu, FGBT, verða sótt heim þar sem kynntar verða fyrir hópnum þær áskoranir sem samtökin hafa rekist á í tengslum við fjórðu iðnbyltinguna og þá sérstaklega deilihagkerfið. Þá munu ungliðar FGBT kynna starf sitt og uppbyggingu.

Þriðja lota byggir í meira mæli en fyrri lotur á fyrirlestrum, en þó mun þátttakendum líka gefast kostur á að spreyta sig á raunhæfum verkefnum og taka þátt í umræðum á ensku um þau mál sem brenna á ungu fólki í Evrópu.

Námskeiðið var haldið í fyrsta skipti síðasta vor og var mikil ánægja meðal þátttakenda og almenn sátt um hvernig til tókst. Þá sendi félagið líka tvo félagsmenn, þau Sigurpál Gunnarsson og Guðbjörgu Helgu Andrésdóttur. Í dag sitja þau bæði í aðalstjórn félagsins.