Eftirfarandi grein eftir Kristínu Hebu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Vörðu, má finna á heimasíðu ASÍ.
Merki Alþýðusambands Íslands er keðja samsett úr mörgum hlekkjum sem eru táknrænir fyrir baráttu launafólks. Baráttu sem er háð samstöðu fjöldans og er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn.
Árið 2019 hóf Drífa Snædal, þáverandi forseti Alþýðusambands Íslands, vegferð í að koma á fót rannsóknastofnun vinnumarkaðarins. Drífa fékk Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formann BSRB, með sér að borðinu. Fyrir þeim vakti að koma á fót stofnun sem gæti unnið að rannsóknum og skapað þekkingu á lífskjörum launafólks innan þessara tveggja heildarsamtaka sem saman ná yfir meirihluta íslensks vinnumarkaðar og á vormánuðum 2020 var Varða-Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins stofnuð.
Í raun var það tvennt sem vakti fyrir Drífu og Sonju. Í fyrsta lagi að styrkja fræðilega þekkingu á vinnumarkaði og að stuðla að rannsóknum sem hafa beina þýðingu fyrir hag launafólks. Forsjárhyggja forsvarsmæðra Vörðu lá í því að bera kennsl á að í breyttum heimi væri þörf á rannsóknum á stöðu launafólks og stöðu mismunandi hópa sem mundi skapa grundvöll fyrir áframhaldandi baráttu verkalýðshreyfingarinnar sem væri með enn ríkari hætti byggð á bestu stöðu þekkingar.
Rannsóknir Vörðu hafa ítrekað sýnt að í okkar samfélagi eru ákveðnir hópar sem búa við mun verri kjör en aðrir. Það á við um þau sem taka örorku-og endurhæfingarlífeyri, einhleypa foreldra og innflytjendur. Rannsóknir Vörðu á stöðu þessara hópa og launafólks almennt hafa vakið mikla athygli og rannsókn Vörðu á stöðu fólks sem starfar við ræstingar skipaði veigamikið hlutverk í síðustu kjarasamningum. Þar var samið um meiri hækkun launa meðal þeirra sem starfa við ræstingar en annarra á vinnumarkaði, þrátt fyrir að því miður sé ekki útséð með að þær kjarabætur muni skila sér til ræstingafólk.
Varða hefur frá stofnun verið umsvifamikil í að varpa ljósi á stöðu launafólks á Íslandi. Sú þekking sem hefur skapast eftir að rannsóknastofnuninni var komið á fót hefur verið þýðingarmikil í baráttunni fyrir bættum lífsskilyrðum og má segja að stofnunin hafi nú skapað sér sess sem einn hlekkur í keðjunni sem er táknræn fyrir baráttu launafólks.
Drífa Snædal, þáverandi forseti ASÍ, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, handsala samkomulag um Vörðu – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins.