Yfirlýsing vegna alþjóðlegs baráttudags vegna ofbeldis gegn konum - Ljósaganga á Akureyri í dag

Ofbeldi gegn konum þarf að taka enda. Stéttarfélög um alla Evrópu styðja ákall um að Evrópusambandið geri allt í þess valdi til að stemma stigu við ofbeldi gegn konum. 

Ofbeldi gegn konum stoppar ekki við dyrastaf heimilisins. Líkamlegt og andlegt ofbeldi gegn konum á sér líka stað á vinnustöðum, óháð geira, starfsstétt eða menntun. Sum störf eru sérlega viðkvæm, til dæmis hjúkrunarfræði, kennsla, umönnun, þrif, flutningar, smásala, heimaþjónusta, veitingar og gisting. En áhættan er raunveruleg fyrir alla:

- 63% kvenkyns starfsmanna í Evrópu hafa upplifað minnst eitt nýlegt ofbeldisatvik;
- Fjórði hver kvenkyns starfsmaður í Hollandi hefur upplifað ofbeldi af hálfu skjólstæðinga, viðskiptavina, nema eða farþega;
- Helmingur heilbrigðisstarfsfólks í Búlgaríu hefur upplifað ofbeldi í starfi.

Stéttarfélög og atvinnurekendur gegna mikilvægu hlutverki í að hindra ofbeldi gegn konum í starfi þeirra, að setja upp viðbragðsáætlanir til að tilkynna og skrá ofbeldi og áreitni í starfi, að styðja þolendur og fást við gerendur. Ofbeldi og áreitni fá í auknum mæli meðferð í kjarasamningum um alla Evrópu (og ETUC hefur safnað gögnum um 80 slíka samninga).

Við styðjum kröfuna og handfastar tillögur sem miða að því að stoppa ofbeldi gegn konum. Við styðjum ykkur í að kalla eftir:

• Innleiðingu ESB á Istanbúl-sáttmálanum, gegn ofbeldi gagnvart konum;
• Efldum stuðningi, vernd og réttindum fyrir fórnarlömb ofbeldis gegn konum ef svo fer að sáttmálinn komist ekki gegnum Leiðtogaráðið;
• Að ofbeldi gegn konum verði bætt á lista yfir ESB glæpi (styðja fyrirbyggjandi aðgerðir, varnir og úrbætur, þar á meðal handtökuskipanir sem ná yfir landamæri þegar um ofbeldi gegn konum er að ræða).
Við skorum einnig á ykkur að taka brýn skref til að hvetja til:
• Fullgildingar á Istanbúl-sáttmálanum af hálfu þeirra sex landa sambandsins sem ekki hafa enn gert það (Búlgaría, Tékkland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Slóvakía og Bretland);
• Fullgildingar af hálfu allra aðildarlanda ESB á ILO sáttmála 190 um ofbeldi og áreitni í starfi.

Innleiðing Istanbúl-sáttmálans af hálfu ESB og fullgilding ILO sáttmálans myndi styrkja vinnu stéttarfélaga, atvinnurekenda og annarra samtaka í viðbrögðum við ofbeldi gegn konum, þar á meðal á vinnumarkaði. Það myndi styrkja innleiðingu á rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins í Evrópu um áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Þess vegna leggjum við til að ESB styðji verkafólk og stéttarfélög þeirra á alþjóðlegum degi gegn kynbundnu ofbeldi þann 25. nóvember, svo ná megi okkar sameiginlega markmiði að stoppa ofbeldi gegn konum í vinnu, á heimilinu og alls staðar þar sem það á sér stað í löndum ESB.

Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC)

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Við þetta má bæta að á vef Akureyrarbæjar segir að í dag hefjist alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi og af því tilefni verður ljósaganga á Akureyri sem hefst kl. 17. Gengið verður frá Menningarhúsinu Hofi að Akureyrarkirkju.

Að göngunni standa Jafnréttisstofa, Soroptimistar, Zontaklúbbur Akureyrar og Zontaklúbburinn Þórunn Hyrna. Boðið verður upp á kakó og piparkökur í lok göngunnar. Treflar til styrktar Aflinu verða til sölu.

Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991. Tímasetning átaksins er engin tilviljun, en það hefst í dag 25. nóvember á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum og lýkur 10. desember á hinum alþjóðlega mannréttindadegi. Markmið átaksins er að vekja athygli á og knýja á um afnám alls kyndbundins ofbeldis.

Í tilefni átaksins verður stígurinn meðfram Drottningarbraut, Samkomubrúin og Hof upplýst með appelsínugulum ljósum, en appelsínugulur er litur átaksins.