Utanlandsferðir

Ferðanefnd félagsins ákvað á fundi árið 2024 að bjóða upp á utanlandsferð annað hvort ár og verður næsta utanlandsferð í boði á árinu 2026. Jafnframt var ákveðið að það ár sem ekki verður boðið upp á utanlandsferð að þá verði boðið upp á veglegri "Fjallaferð."

Utanlandsferð Einingar-Iðju sumarið 2026 í samstarfi við Verdi ferðaskrifstofu.
Holland og Þýskaland 4. til 11. júní 2026 

Farið verður til Hollands og Þýskalands dagana 4. til 11. júní 2026, ef næg þátttaka fæst. Hámark 50 manns.

Flogið verður frá Akureyri með Transavia til Amsterdam og þaðan heim aftur til Akureyrar.

Dagur eitt: Flogið frá Akureyri til Amsterdam. Brottför kl. 10:25. Lending kl. 15:30. Ekið til Kölnar í Þýskalandi (259 km. um 5 klst. + stopp með kvöldverði) og gist á hótel Steigenberger Hotel Köln í 4 nætur. Frábært 4* hótel í hjarta Kölnar.

Dagur tvö: Sigling á Rín í Köln. Hádegismatur. Dómkirkjan í Köln skoðuð. Gengið um gamla bæinn. Einnig tækifæri til að kíkja í verslanir sem eru á hverju götuhorni. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

Dagur þrjú: Dagsferð til Koblenz (um 120 km. 1:45 klst.). Þýska hornið skoðað þar sem áin Mósel rennur í Rín. Minnisvarðinn (38m) um Vilhjálm I. frá 1897 skoðaður. Gengið um gamla miðbæinn þar sem hægt er að versla. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

Dagur fjögur: Ekið til Düsseldorf (um 40 km. 45 mín). Gamli bærinn skoðaður og Rínarbakkar. Gengið um „lengsta bar í heiminum“ sem er ein löng gata með mörgum börum og pöbbum. Allar verslanir eru lokaðar á sunnudögum í Þýskalandi. Vínsmökkun á heimleið. Kvöldmatur á eigin vegum.

Dagur fimm: Yfirgefum hótelið og ekið til Amsterdam (259 km. um 5 klst. + stopp með hádegisverði). Gist á hótel Mövenpick Hotel Amsterdam City Center í 3 nætur. Vel staðsett og nútímalega innréttað 4* hótel með flottu útsýni yfir miðsvæði Amsterdam. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

Dagur sex: Kanalsigling í Amsterdam sem er þekkt fyrir sína fallegu skipaskurði. Eftir hádegismat verður heimsókn í Önnu Frank (1929-1945) húsið. Þeir sem vilja geta farið í gönguferð um hið skemmtilega Jordaan-hverfi (margar fallegar byggingar og matsölustaðir). Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

Dagur sjö: Frjáls dagur í Amsterdam, en fyrir áhugasama heimsókn í Heinekensafnið með bjórsmökkun. Tækifæri til að heimsækja verslanir og undirbúa heimferð Kvöldmatur á eigin vegum.

Dagur átta: Vaknað snemma. Brottferð frá Schipolflugvelli kl. 8:10. Lending á Akureyri kl. 9:25.

Leiðsögumaður verður Harpa Hallgrímsdóttir og fararstjórar Björn Snæbjörnsson og Elsa Sigmundsdóttir. 

Verð kr. 299.900 á mann í tveggja manna herbergi. (Eins manns herbergi kostar kr. 400.000)
Óafturkræft staðfestingargjald er kr. 50.000 sem þarf að greiða við skráningu.
Það þarf að vera búið að greiða ferðina í síðasta lagi 31. mars 2026.

Dregnir verða 18 orlofspunktar frá punktaeign þeirra sem fara í ferðina.

Innifalið í verði:

  • Akstur: Allur akstur erlendis.
  • Flug: Akureyri – Amsterdam – Akureyri.
  • Gisting: Sjö nætur í tveggja manna herbergjum á hótelum með morgunverði.
  • Fjórir kvöldverðir innifaldir. 

Ekki innifalið í verði:

  • Hádegisverðir og þrír kvöldverðir
  • Aðgangseyrir í söfn, og aðra áhugaverða staði þar sem þarf að borga inn.
  • Sigling á Rín og í Amsterdam. 

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að ferðin sé alla jafna þægileg rútuferð er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. 

Allar nánari upplýsingar um ferðatilhögun og skráning í ferðirnar verður á skrifstofum félagsins, sími 460 3600 eða netfangið ein@ein.is, frá miðvikudeginum 5. nóvember 2025.