„Að vera í stjórn stéttarfélags er svo sannarlega þess virði“

Sigurpáll og Guðbjörg á þingi ASÍ sl. haust ásamt Hrefnu ritara félagsins
Sigurpáll og Guðbjörg á þingi ASÍ sl. haust ásamt Hrefnu ritara félagsins

Eftirfarandi pistil má finna í jólablaði félagsins.

Á fræðsludegi félagsins í haust voru tveir ungir stjórnarmenn í aðalstjórn Einingar-Iðju með erindi um ungt fólk og stéttarfélög. Hér fyrir neðan má lesa nokkra punkta úr erindinu þar sem Sigurpáll Gunnarsson og Guðbjörg Helga Andrésdóttir fjölluðu m.a. um þeirra upplifun að vera ungir stjórnarmenn í félaginu. 

Sigurpáll er 23 ára og er trúnaðarmaður í Brekkuskóla auk þess að vera meðstjórnandi Einingar-Iðju. Guðbjörg Helga er 29 ára og er trúnaðarmaður í íbúðarkjarnanum Borgargili hjá Akureyrarbæ. Hún er einnig í stjórn Einingar Iðju sem varaformaður Opinberu deildarinnar, sem er sú deild sem sér málefni félagsmanna sem vinna hjá ríki og sveitafélögunum. 

Í erindinu sögðu þau aðeins frá byrjun þeirra innan Einingar Iðju. „Fyrir nokkrum árum fengum við bæði bréf inn um póstlúguna um að við höfum verið kjörin trúnaðarmenn á okkar vinnustöðum og fórum fljótlega eftir það á trúnaðarmannanámskeiðin hjá Einingu-Iðju. Okkur fannst flest námskeiðin mjög áhugaverð og lærdómsrík þótt sum hafi verið full af tölum og hagfræði orðum sem enginn skildi.“ 

Guðbjörg Helga sagði að hennar verkalýðsþátttaka hafi svo byrjaði fyrir alvöru þegar Anna varaformaður félagsins hringdi í hana vorið 2017 til að athuga hvort hún vildi fara á Ungliðafund Starfsgreinasambands Íslands. „Ég hafði í raun ekki hugmynd hvað ég væri að fara út í en það hljómaði vel að hitta annað fólk á svipuðum aldri sem hafði áhuga á verkalýðsmálum. Síðan þá hefur síminn eiginlega ekki stoppað hjá mér og hef ég tekið þátt í öllu mögulegu á vegum Einingar-Iðju.“ 

Sigurpáll sagði að hann hafi boðið sig fram sem meðstjórnanda í stjórnina og var valinn í það hlutverk, „Stuttu seinna bauðst mér kostur á að fara á námskeiðið Ungir leiðtogar hjá Alþýðusambandi Íslands og mæta á Ungliðafundi hjá SGS.“ 

Þau sögðu að ungliðafundir SGS séu virkilega sniðug lausn til að koma ungu fólki af stað í verkalýðshreyfingunni og vekja hjá þeim áhuga á þessu mikilvæga málefni. „Vorið 2018 fórum við Sigurpáll suður tvær helgar á námskeiðið Ungir leiðtogar sem var virkilega skemmtilegt og seinasta kennsluhelgin var haldin út í Brussel sem vakti mikla lukku. Ég fékk símhringingu rétt eftir áramót og var spurð hvort ég vildi gefa kost á mér sem varaformaður Opinberu deildarinnar. Mér leyst vel á þá hugmynd og var kjörin. Mér finnst mjög þægilegt andrúmsloft á stjórnarfundum, það geta allir sagt síðan skoðanir og rætt saman. Upplifunin mín innan Einingar Iðju hefur alltaf verið góð og allir ánægðir þegar maður gefur sér tíma til að sinna verkefnum á vegum stéttarfélagsins,“ sagði Guðbjörg Helga. 

Vel tekið á móti mér
„Ég fann fyrir örlitlu stressi að byrja í stjórn félagsins, enda langtum yngstur, en mér hefur alltaf fundist vera tekið vel á móti mér, það er hlustað á þá hluti sem ég hef að segja og borin virðing fyrir mínum ungu skoðunum, í dag er þetta mjög skemmtilegt og er ég oftast spenntur að mæta á fundi. Þetta er líka bara svo frábær hópur, fólk hefur að sjálfsögðu mismunandi skoðanir en mér finnst alltaf borin virðing fyrir öllum og allir eru sáttir,“ sagði Sigurpáll. 

Þau sögðust bæði vera í samningarnefnd Einingar-Iðju ásamt því að vera í stjórn félagsins. „Það er mjög góð leið til að koma sínum málefnum á framfæri með því að vera í kjarasamninganefnd. Þar er hægt að nýta tækifærið og segja frá þeim kröfum sem snerta yngra fólkið sem eru líka oft með fleiri lán sem þau þurfa að greiða af. Sum eru með gjalddaga fyrsta hvers mánaðar og þá er mikilvægt að fá útborgað á þeim degi þegar launin endast bara mánuðinn. Fyrir þau sem eru með börn skiptir verulegu máli að berjast fyrir lengra fæðingarorlofi, styttri vinnuviku og lengra fríi til að njóta sem mesta tíma með fjölskyldunni. Sérstaklega í samfélagi sem allt gerist rosa hratt.“ 

Sigurpáll sagði að margir vina hans finnist það sérstakt að ungt fólk eins og hann sé þetta áhugasamur um störf stéttarfélaga og margir ungir skilji það oft ekki. „Ég hef alveg fundið fyrir undrun vina minna að ég sé ekki bara í stjórn stéttarfélags heldur einnig að ég hafi gaman að því og að ég sé virkur og áhugasamur. En vinirnir nýta sér það oft að spyrja mann út í samninga og réttindamál, af og til fær maður skilaboð frá vinum að spyrja “hvernig sæki ég um bústað hjá Einingu? Sem er bara gott og blessað.“ 

„Ég get hins vegar ekki sagt að ég finni fyrir undrun vina minna með að ég sé í stjórn stéttarfélags öllum finnst það voða eðlilegt. Allir í vinnunni eru mjög duglegir að spyrja mig út í launamál, fatapening og hvað sé að frétta í kjarasamningamálum,“ sagði Guðbjörg Helga. 

Ekkert sérstaklega tímafrekt
„Að vera í stjórn er ekkert sérstaklega tímafrekt, við förum mánaðarlega á stjórnarfundi og svo náttúrulega aðra viðburði haldna af félaginu, ég vil lýta á það þannig að það sé mikilvægt að stjórnarmeðlimir félagsins séu sýnilegir og mæti á flesta viðburði félagsins,“ sagði Sigurpáll.

Guðbjörg Helga sagði að stjórnarmenn fari einnig á þing hjá Alþýðusambandi Norðurlands sem haldið er á Illugastöðum í Fnjóskadal, og suður á þing ASÍ og SGS þar sem stór hópur fólks kemur saman til að ræða málin og leita af lausnum og fá nýjar hugmyndir. Sigurbjörn bætti við að þó að fundirnir geti verið langir og margir þá er það bara einhvern veginn partur af starfinu, „ég er allavega mjög stoltur þegar ég segi að ég sé meðstjórnandi stéttarfélags, og alveg sérstaklega þar sem ég er svona ungur.“ 

Þau sögðust hafa verið spurð hvort þetta væri erfitt og að vissu leiti getur það verið það. „Erfiðasta sem ég hef upplifað var þegar ég sá nafnið mitt á blaðinu fyrir trúnaðarmannadaginn og var tjáð að við Sigurpáll ættum að standa á sviðinu og flytja fyrirlestur,“ Sagði Guðbjörg Helga.

„Mér finnst til dæmis erfitt þegar fólk skilur ekki hvernig störf félagsins virka, fólk hefur beðið mig um að segja eitthvað sérstakt á stjórnarfundum og býst við því að það sé nóg til þess að breyta hlutunum á núll einni. Ýkt dæmi af þessu er til dæmis: “þú verður að segja við stjórnina að hækka launin okkar um 30%” og svo daginn eftir stjórnarfund er maður spurður: “jæja? Hækka launin?” eins og þetta sé það einfalt, annað sem mér þykir stundum erfitt er þegar vinnufélagar senda mér skilaboð eða hringja eftir vinnu og biðja um ráð, það er alveg pínu erfitt að segja “ræðum þetta í vinnunni” en það er bara eitthvað sem maður þarf að venja sig á sem trúnaðarmaður,“ sagði Sigurpáll. 

Þau sögðu að lokum að það að vera í stjórn stéttarfélags er svo sannarlega þess virði, að fá að koma sínum málum á framfæri og standa fyrir sínu fyllir mann smá stolti til að vilja gera meira og betur. „Í lokin viljum við þakka fyrir okkur og ýta undir hvað við erum stolt að vera partur af þessu batteríi, þau verk sem verkalýðsbaráttan hefur áorkað eru mikilvæg og við getum ekki beðið eftir að halda baráttunni áfram.“