Aðalfundur Einingar-Iðju stendur nú yfir

Aðalfundur félagsins hefur verið haldinn í mars undanfarin ár en vegna aðstæðna í þjóðfélaginu þurft…
Aðalfundur félagsins hefur verið haldinn í mars undanfarin ár en vegna aðstæðna í þjóðfélaginu þurfti að fresta honum þar til nú.

Aðalfundur félagsins stendur nú yfir í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Nú er Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að flytja skýrslu stjórnar þar sem hann sagði m.a.: "Þegar við höldum aðalfund félagsins förum við í stórum dráttum yfir atburði síðasta árs. Flest hefur gengið vel. Þó eru dimm ský á lofti. Eins og við vitum öll hefur töluverð breyting orðið á þjóðfélaginu. Staða margra félaga okkar, sérstaklega í ferðaþjónustunni, hefur versnað til mikilla muna. Fjöldi launþega á hótelum og veitingastöðum eru atvinnulausir og enn fleiri á hlutabótaleiðinni. Það batnar vonandi að einhverju leyti nú þegar sumarið gengur í garð og búið að lina tökin á samkomubanninu. Enginn vill verða atvinnulaus, en með aðgerðum stjórnvalda, með hlutabótaleiðinni og að greiða fyrirtækjum hluta af uppsagnarfresti starfsfólks, má bjarga miklu og við treystum því að ástandið verði betra er líður á sumarið. Ég held að aldrei í sögu félagsins hafi svo margir verið skráðir atvinnulausir eða á hlutabótum eins og núna. 

Ég held þó að samfélagið okkar sé sterkara en margir aðrir landshlutar vegna samsetningar vinnumarkaðarins hér. Matvælaframleiðslan, opinbera þjónustan og byggingaframkvæmdirnar munu nokkurn veginn halda óbreyttri starfsemi. Eins og stundum áður erum við ekki að sveiflast mikið til. Fljúgum alltaf í svipaðri hæð!!"

Hann fjallaði jafnframt um félagsstarfið og atvinnurekendur og sagði m.a.: "Félagsstarfið hefur mjög mikið snúist um samninga og atkvæðagreiðslur og ekki síst um eftirfylgni með þeim. Það er með ólíkindum hversu margir koma til okkar vegna allskonar brota atvinnurekanda gegn þeim, sömuleiðis er líka mikið um að fólk komi til okkar til að fá upplýsingar og ráðgjöf.

Svo eru dæmi um að fólk kemur ekki til okkar fyrr en það er hætt á vinnustaðnum og hefur ekki fengið umsamin laun eða réttindi brotin á þeim. Það er oft erfitt að fá leiðréttingar þegar fólk er hætt. Dómstólar eru í meira mæli farnir að dæma þannig að ef viðkomandi hefur ekki kvartað og getur ekki sannað að hann hafi óskað eftir leiðréttingu, þá fæst rétturinn ekki viðurkenndur og talið að viðkomandi hafi sýnt tómlæti og með því samþykkt gjörninginn!!

Svo eru þeir sem eru svo óöryggir að þeir vilja ekki láta okkur ganga í málið, halda að þá missi þeir bara vinnuna. Ég hef heyrt frá félagsmönnum, reyndar ekki mörgum, að atvinnurekandi segi við einstaklinga: „Ef þú ferð í stéttarfélagið þá verðurðu rekinn“. Þetta viðhorf er til skammar og á ekki að líðast, en fólk er hrætt við að missa vinnuna. Flestir sem lenda í svona aðstæðum eru ungt fólk og útlendingar.

95% atvinnurekenda eru með hlutina í lagi, eða gera í besta falli mistök sem eru leiðrétt ef við komum með athugasemdir. Það hefur alveg komið fyrir að atvinnurekendur hafa sagt við mig: „Þið eruð alltaf að skamma okkur en við eigum það ekki skilið“. Það er sjálfsagt rétt við notum stundum stór orð og alhæfum. Það er auðvitað ekki sanngjarnt ég viðurkenni það alveg. Þessum 95% vil ég þakka gott samstarf og vonast eftir því að samstarfið verði áfram gott. Við hina vil ég segja að við munum alltaf standa fast á réttindum launafólks og verja það gegn hverskonar brotum af hendi atvinnurekenda."

Ræðu formanns í heild má finna hér 

Hér má nálgast ársskýrsluna í heild sinni, sem inniheldur skýrslu stjórnar sem og ársreikning félagsins.

Nánar verður sagt frá fundinum á heimasíðu félagsins á morgun og næstu daga.