Utanlandsferðin 2019

Fjögur lönd á 11 dögum - UPPSELT ER Í FERÐINA

Farið verður til Þýskalands, Austurríkis, Króatíu og Slóveníu 10. til 20. ágúst 2019, ef næg þátttaka fæst. Hámark 50 manns.

Flogið verður frá Keflavík til Munchen og þaðan aftur til Keflavíkur.

Farið verður til Zell am See og þar gist í eina nótt á Hotel der Schütthof. Næsta dag verður ekið suður á bóginn gegnum Slóveníu til Opatija í Króatíu þar sem gist verður í eina nótt á Hotel Bristol. Daginn eftir verður ekið áfram suður á bóginn til Biograd na Moru á Dalmatíuströnd við Adríahaf en þar verður dvalið í 5 nætur á Hotel Ilirija, góðu hóteli við höfnina. Frá Biograd verður farið í tvær dagsferðir. Annars vegar til gömlu borganna Split og Trogir og hins vegar í þjóðgarðinn Krka. Einnig verður farið til borgarinnar Zadar.

Frá Biograd na Moru verður farið norður á bóginn til Bled í norðvestur Slóveníu þar sem gist verður í tvær nætur á Sava Hoteli Bled. Frá Bled verður ekið í gegnum Austurríki til München í Þýskalandi þar sem gist verður síðustu nótt ferðarinnar á Victor´s Residenz-Hotel

Leiðsögumaður verður Harpa Hallgrímsdóttir og fararstjóri Björn Snæbjörnsson. 

Verð kr. 285.000 á mann í tveggja manna herbergi en kr. 340.000 í eins manns herbergi. Óafturkræft staðfestingargjald er kr. 50.000 sem þarf að greiða innan 10 daga frá pöntun. 

Athugið! Boðið verður upp á rútuferð til Keflavíkur 9. ágúst og heim 20. ágúst. Einnig verður boðið upp á gistingu í Keflavík aðfararnótt 10. ágúst. 

Dregnir verða 18 orlofspunktar frá punktaeign þeirra sem fara í ferðina. 

Innifalið í verði:

  • Akstur: Allur akstur  erlendis.
  • Flug: Keflavík – Munchen - Keflavík.
  • Gisting: 10 nætur í tveggja manna herbergjum á hótelum með morgunverði.
  • 10 kvöldverðir innifaldir erlendis. 

Ekki innifalið í verði:

  • Ferðir og gisting innanlands
  • Aðgangseyrir í söfn og á áhugaverða staði þar sem þarf að borga inn.

 

Ferðalýsing: 

Laugardagur 10. ágúst

Flug frá Keflavík kl. 7.20 til München. Áætluð lending kl. 13.05 að staðartíma. Þaðan verður ekið sem leið liggur til Zell am See (9.850 íbúar) í Salzburgarlandi í Austurríki. Þetta er fallegur bær í um það bil 750 metrum yfir sjávarmáli. Bærinn er vinsæll ferðamannastaður, ekki síst á veturnar, fyrir skíðaunnendur. Einnig eru skemmtilegar gönguleiðir við Zellervatn í fallegu alpaumhverfi. Þarna verður gist í eina nótt á Hotel der Schütthof. (Akstur 180 km, u.þ.b. 3-4 tímar) 

Sunnudagur 11. ágúst

Ekið frá Zell am See suður á bóginn gegnum Slóveníu til Opatija í Króatíu. Þetta er lítill strandbær (12.000 íbúar) við Kvarnerflóa í Norður-Króatíu. Í miðbænum eru margar fallegar byggingar, þá eru malbikaðir göngustígar meðfram ströndinni þar sem finna má skemmtilega veitingastaði. Þarna verður gist í eina nótt á Hotel Bristol. (Akstur 380 km, u.þ.b. 7-8 tímar) 

Mánudagur 12. ágúst

Farið frá Opatija suður á bóginn til Biograd na Moru á Dalmatíuströnd við Adríahaf en þar verður dvalið í 5 nætur á góðu hóteli við höfnina, Hotel Ilirija. Biograd na Moru (5.600 íbúar) var höfuðborg króatíska konungsveldisins á miðöldum. Þetta er afar falleg strandborg í stórkostlegu náttúruumhverfi. (Akstur 275 km, u.þ.b. 6-7 tímar) 

Þriðjudagur 13. ágúst

Frídagur í Biograd na Moru. 

Miðvikudagur 14. ágúst

Dagsferð til gömlu borganna Split (um 200.000 íbúar) og Trogir (um 14.000 íbúar). Split er höfuðborg Dalmatíuhéraðs og næststærsta borg Króatíu. Elsti huti borgarinnar er frá tímum rómverja og hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1979. Hér bjó Díókletían keisari á fyrri hluta 4. aldar e. Kr. en hann lét reisa mikla höll við ströndina sem stendur að hluta til allt fram á þennan dag en þar búa núna tæplega 2000 manns. Trogir er gömul hafnarborg í um það bil 15 km fjarlægð frá Split. Hún er einnig á heimsminjaskrá UNESCO. (136 km til Split, u.þ.b. 2 tímar) 

Fimtudagur 15. ágúst

Ekið til borgarinnar Zadar (76.000 íbúar). Þar er að finna margar gamlar byggingar og rústir frá rómverska tímanum og feneíska tímanum. Frá borginni er fallegt útsýni yfir til fjölmargra eyja utan við ströndina. (Akstur u.þ.b. 30 km hvor leið) 

Föstudagur 16. ágúst

Dagsferð í þjóðgarðinn Krka. Þjóðgarðurinn er stundum kallaður gimsteinn Dalmatíuhéraðs en þar má m.a. finna fallega fossa og vatnasvæði sem tengist ánni Krka. Þarna er gaman að koma og sjá einstaka náttúrufegurð, m.a. yfir 800 gróðurtegundir, svæðið er eingöngu hægt að skoða fótgangandi. Ekið verður með rútunni inn á svæðið og gengið í rólegheitum. (Akstur 67 km, u.þ.b. 1 tími) 

Laugardagur 17. ágúst

Farið frá Biograd na Moru norður á bóginn til Bled í norðvestur Slóveníu þar sem gist verður í tvær nætur á Sava Hoteli Bled. Bled (8.200 íbúar) er perla Slóveníu og liggur við Bledvatnið. Bærinn liggur í 500 m. hæð yfir sjávarmáli. Þarna er fallegur kastali sem gaman er að skoða. Á eyjunni í vatninu er lítil falleg Maríukirkja sem á sér langa sögu. (Akstur 422 km, u.þ.b. 10-11 tímar) 

Sunnudagur 18. ágúst

Njótum dagsins í Bled. Hægt er að fara með róðrarbátum út í eyju, taka göngu kring um vatnið og ganga upp í kastalann og njóta fegurðarinnar á þessum einstaka stað. 

Mánudagur 19. ágúst

Kveðjum Bled og ökum gegn um Austurríki til Unterschleißheim í nágrenni München og gistum þar á á Victor´s Residenz-Hotel. (Akstur 400 km, u.þ.b. 8 tímar) 

Þriðjudagur 20. ágúst

Farið út á Franz-Josef Strauss flugvöllinn í München. Brottför til Keflavíkur kl. 14.05. Lending í Keflavík kl. 16.00 að staðartíma. (Akstur 21 km, u.þ.b. 30 mínútur)

Allar nánari upplýsingar um ferðatilhögun og skráning í ferð verður á skrifstofu félagsins á Akureyri, Skipagötu 14, sími 460 3600, frá fimmtudeginum 3. janúar 2019.