10. þing SGS sett - ræða formanns

Tíunda þing Starfsgreinasambands Íslands var sett í Hofi á Akureyri fyrr í dag. Þing SGS hefur æðsta vald í málefnum sambandsins þar sem lagðar eru línur í kjaramálum og starfsemi SGS til næstu tveggja ára og þýðingarmikil mál tekin til umfjöllunar. Aðildarfélög sambandsins skipa þingfulltrúa í réttu hlutfalli við fjölda félagsmanna, en alls eiga 135 fulltrúar frá 18 aðildarfélögum rétt til að sitja hvert þing. Í ár á Eining-Iðja 15 fulltrúa á þinginu. Áætluð þinglok eru kl. 14:00 næsta föstudag en dagskrá þingsins má finna hér.

Í upphafi dagskrárs flutti Kvennakór Akureyrar fjögur lög undir undir stjórn Valmars Väljaots. Sýnt var ávarp Ingu Sæland, Félags- og húsnæðismálaráðherra, þar sem hún var stödd erlendis. Forseti ASÍ, Finnbjörn Hermannsson, steig í pontu og flutti ávarp.

Að lokum flutti Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, setningarræðu þingsins þar sem hann sagði m.a. "Við vitum að lífskjör eru alls ekki þau sömu alls staðar á landinu. Á landsbyggðinni þurfa heimili að greiða hærri flutnings- og raforkukostnað, hærra vöruverð þar sem ekki eru stórmarkaðir til að skapa samkeppni og þurfa að þola lakara aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þetta er ekkert annað en landsbyggðaskattur. Skattur sem enginn kaus um, en sem fólk utan höfuðborgarsvæðisins greiðir daglega. Það er óásættanlegt að fólk þurfi að greiða meira fyrir sömu matvöru, rafmagn, húshitun, ferðalög til læknis og svona mætti lengi telja – Já, þessi landsbyggðarskattur er einungis vegna búsetu. Þetta er ekki náttúrulögmál, þetta er afleiðing af kerfislægri mismunun. Og við í SGS segjum: þetta óréttlæti verður ekki liðið lengur. "

Ræðu Vilhjálms má lesa í heild sinni hér.

Að setningu lokinni fór fram kosning þingforseta og ritara. Þá fór fram  kynning á þingvef og farið var yfir álit kjörbréfanefndar. Einnig voru  niðurstöður nefndanefndar kynntar en á þinginu verða starfandi fjórar málefnanefndir sem munu fjalla um kjaramál, lífeyrismál, húsnæðismál og byggðamálum.