43 umsóknir um starf ráðgjafa

Nýlega auglýsti félagið að laust væri til umsóknar starf ráðgjafa á sviði starfsendurhæfingar. Síðasti dagur til að sækja um var í gær og bárust 43 umsóknir. Nú er vinna í gangi við að fara yfir umsóknirnar sem eru bæði flottar og fjölbreyttar. Stefnt er á að vera búið að ganga frá ráðningu fyrir lok mánaðarins.

Um er að ræða samvinnuverkefni stéttarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Ráðgjafar VIRK starfa hjá Einingu-Iðju samkvæmt samningi við VIRK. Að VIRK standa öll helstu samtök launamanna og atvinnurekanda á vinnumarkaði. Hlutverk VIRK er að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa með árangursríkri starfsendurhæfingarþjónustu. VIRK hefur í samstarfi við fagaðila, fyrirtæki og stofnanir skilað samfélagslegum ávinningi með aukinni þátttöku einstaklinga á vinnumarkaði og er leiðandi í rannsóknum og þróun á sviði starfsendurhæfingar.