Aðalfundur Einingar-Iðju 2024 – skýrsla stjórnar og ársreikningur

Aðalfundur Einingar-Iðju fór fram á hótel KEA á Akureyri í gær, þriðjudaginn 16. apríl. Tekinn var í notkun nýr ársskýrsluvefur félagsins. Á fundinum fór Anna formaður félagsins yfir skýrslu stjórnar, Hermann Brynjarsson, frá endurskoðunarfyrirtækinu Enor ehf., fór yfir ársreikningana og einnig voru kosnir fulltrúar Einingar-Iðju í fulltrúaráð Stapa lífeyrissjóðs. Þá voru teknar fyrir og samþykktar breytingar á lögum og nokkrum reglugerðum félagsins.

Í ræðu sinni fjallaði Anna m.a. um fyrsta árið sem formaður. "Það er liðið ár síðan ég tók við formennsku og eins og ég hef alltaf vitað þá næ ég aldrei að ganga í fótsporin hans Bjössa en sem betur fer hefur hann alltaf verið tilbúinn að aðstoða þegar á þarf að halda. Nýr varaformaður kom einnig inn á síðasta starfsári og má segja að fyrsta árið okkar hafi verið lærdómsríkt. Okkur Tryggva hefur gengið mjög vel að vinna saman með Björn svona aðeins á kantinum. Óhætt er að segja að árið er búið að vera viðburðaríkt, mjög mikið hefur verið að gera og margt að læra."

Þá ræddi hún einnig þá staðreynd að greinilegt er að erfiðara er nú en áður fyrir trúnaðarmenn að komast á námskeið. "Við ákváðum því að fara í vinnu til að sjá hvernig best væri að bregðast við þessu. Það fyrsta sem við gerðum var að kalla saman okkar trúnaðarmenn á um 20 fundi í október og nóvember. Þarna gafst þeim tækifæri til að fara yfir ýmis mál með starfsmönnum félagsins og nokkrum öðrum trúnaðarmönnum. Óhætt er að segja að þessir fundir hafi tekist mjög vel og mjög margir sem nýttu tækifærið því mjög margt var tekið fyrir. Greinilegt er að erfitt var fyrir marga að losna úr vinnu til að sækja námskeið og virtust vera þó nokkrar ástæður fyrir því. Sumir fengu hreinlega ekki frí og þó svo að vinnuveitandinn gæfi frí þá vissi trúnaðarmaðurinn sem svo að þá þyrftu vinnufélagarnir bara að hlaupa hraðar vegna manneklu og ákvað því að sleppa námskeiðinu. Þessi staða á ekki bara við okkar félag því við heyrum þetta víða."

Sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð
Sjálfkjörið var í stjórn og trúnaðarráð félagsins þar sem aðeins einn listi barst með tilnefningum. Í kjöri þetta árið var varaformaður og meðstjórnandi til tveggja ára. Stjórn Einingar-Iðju skipa nú: Anna Júlíusdóttir formaður, Tryggvi Jóhannsson varaformaður, Gunnar Magnússon ritari og Pálmi Þorgeir Jóhannsson meðstjórnandi. Einnig svæðisfulltrúarnir þrír, þau Halldóra Þormóðsdóttir, Róbert Þorsteinsson og Sigríður Jósepsdóttir, og formenn og varaformenn deildanna þriggja, þau Guðbjörg Helga Andrésdóttir, Ingvar Kristjánsson, Baldvin Hreinn Eiðsson, Bethsaida Rún Arnarsson, Ingibjörg María Ingvadóttir og Svavar Magnússon.