Af hverju fékk ég ekki borgað úr Félagsmannasjóði?

Borið hefur á því að félagsmenn, hvort sem þeir starfa hjá sveitarfélagi eða ekki, hafa verið að hringja í félagið til að athuga af hverju viðkomandi hafi ekki fengið greitt úr Félagsmannasjóði þann 1. febrúar sl.

Félagsmenn sem starfa á almenna markaðinum eða ríki eiga ekki rétt á greiðslu úr Félagsmannasjóði. Einungis er um að ræða félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum, Heilsuvernd, Hólmasól, Fjölsmiðjunni og Hömrum, útilífsmiðstöð skátar. Þeir fá í samræmi við síðustu kjarasamninga greitt 1,5% af launum sínum í Félagsmannasjóð. 

Forsenda þess að hægt sé að greiða úr sjóðnum er að Eining-Iðja hafi bankaupplýsingar þeirra sem eiga rétt á að fá greiðslu úr sjóðnum. Því miður vantar slíkar upplýsingar hjá 305 félagsmönnum eða þá að þær eru rangt skráðar og á því eftir að greiða um 5,8 milljónir úr sjóðnum. Hæsta einstaka upphæðin er rúmar 100.000 krónur þannig að ef þú ert að vinna á þessum vinnustöðum en fékkst ekki greiðslu frá félaginu 1. febrúar sl. þá hvetjum við þig til að fara inn á Mínar síður félagsins og skrá inn þessar upplýsingar sem og síma og netfang. 

Skráðu þig inn á Mínar síður félagsins, með rafrænum skilríkjum, þar getur þú kannað hvort við séum með réttar upplýsingar um þig og lagfært ef þörf krefur. Ef þú kemst ekki inn á síðuna eða hefur einhverjar spurningar í sambandi við Félagsmannasjóðinn þá máttu endilega senda tölvupóst á rosfrid@ein.is

Á næstunni verður aftur greitt úr sjóðnum til þeirra sem skila inn umbeðnum upplýsingum.

Félagsmenn innan Starfsgreinasambandsins, þar á meðal Einingar-Iðju, sem starfa hjá sveitarfélögum fá í samræmi við kjarasamninga frá árinu 2019 greitt 1,5% af launum sínum í Félagsmannasjóð. Auk sveitarfélaga greiða einnig í sjóðinn Heilsuvernd, Hólmasól, Fjölsmiðjan og Hamrar, útilífsmiðstöð skátar.

Í grein 13.8 í samningi SGS við sveitarfélögin er fjallað um Félagsmannasjóð, þar stendur m.a.:

  • Launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í félagsmannasjóð sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna. Úthlutun úr sjóðnum skal fara fram 1. febrúar ár hvert samkvæmt stofnskrá sjóðsins.
  • Félagsmannasjóðurinn er stofnsettur vegna kröfu ASÍ félaga um jöfnun lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra.