Á heimasíðu ASÍ má finna eftirfarandi grein um lífeyriskerfið og ungt fólk eftir formann ASÍ-UNG Svanfríði Bergvinsdóttur, ritara stjórnar, Elsu Hrönn Gray Auðunsdóttur og Valdimar Friðjón Jónsson, varamann í stjórn ASÍ-UNG. Greinin er skrifuð fyrir hönd stjórnar ASÍ-UNG eftir umræður um málið í stjórninni. Elsa Hrönn og Valdimar Friðjón eru bæði félagsmenn í Einingu-Iðju.
Eftir umfjöllun Kveiks um ásækni í séreignarlífeyri ungmenna er eðlilegt að vangaveltur vakni í þjóðfélaginu. Hvaða pening er fólk að tapa, hvers vegna, og hvað er hægt að gera í málinu?
Í stuttu máli má segja að unga fólkið líti svo á að maður þurfi ekki að spá í lífeyri fyrr en maður verður “gamall”. Síðan mætir einhver sölumaður með myndir af snekkjum, kampavíni og kavíar og sýnir unga fólkinu að það geti lifað eins og kvikmyndastjörnur ef það bara borgar “kúk og kanil” í séreignarsparnað. Þetta er næstum of gott til að vera satt! …og það er líka of gott til að vera satt.
Af hverju er svona auðvelt að blekkja ungt fólk? Ungt fólk er ekki vitlaust, bara illa upplýst, þekkir ekki réttindi sín og hefur ekki grunnþekkingu á lífeyriskerfinu.
Lífeyrissjóðskerfið á Íslandi í stuttu máli
Af hverju þekkja ungmenni ekki þessi réttindi sín? Lífeyrissjóðskerfið á Íslandi virkar oft eins og flókið fyrirbæri og því miður of algengt að ekki sé hugað að greiðslum fyrr en viðkomandi hefur verið á vinnumarkaði lengi. Oft vitum við ekki einu sinni í hvaða lífeyrissjóð við erum að greiða fyrr en seint og um síðir, en lífeyrir er ekki bara mál framtíðar.
Áður fyrr var ekkert lífeyrissjóðskerfi á Íslandi. Þá greiddi ríkið ellilífeyri sem enginn gat lifað á. Samið var um að setja upp atvinnutengda lífeyrissjóði með skylduaðild í allsherjar kjarasamningum árið 1969.
Kerfið í dag byggist á þremur meginstoðum sem saman tryggja vinnandi fólki greiðslur sem hægt er að lifa á til æviloka. Fyrst eru almannatryggingar sem tryggja lágmarksframfærslu. Næst er samtryggingin í lífeyrissjóðum þar sem fólk deilir áhættu en getur jafnframt ráðstafað hluta í séreign. Að lokum er viðbótarlífeyrissparnaður, sem er valfrjáls sparnaður, og þar flækist málið.
Viðbótarlífeyrir og erlendir sjóðir
Í dag er hægt að ráðstafa bæði tilgreindri séreign og viðbótarlífeyri í greiðslur til fasteignakaupa, sem er áætlað að verði hægt til frambúðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ungt fólk getur sem sagt nýtt hluta þessara peninga strax.
Ásókn í viðbótarlífeyrissparnað er mikil, sérstaklega sparnað ungs fólks sem ekki þekkir kerfið. Samningar við erlenda sjóði eru oft ógagnsæir og seldir af aðilum sem fá söluþóknun, ekki þeim sem hafa hag neytenda fyrir augum. Í mörgum tilvikum þarf fólk að greiða inn í langan tíma áður en nokkur raunverulegur ávinningur fer að myndast, og kostnaðurinn oft mun hærri er greiðandi gerir sér grein fyrir. Líkt og kom fram í umfjöllun Kveiks eru oft mörg ár þar til að greiðandi er farinn að fá ávinning af því sem hefur verið greitt í erlenda sjóði. Það þýðir í einföldustu orðum að greiðandi er að tapa sínu fé núna, á meðan að sölumenn eru að græða.
Samkvæmt lögum gilda strangar reglur um starfsemi íslenskra lífeyrissjóða sem ganga ekki jafnt yfir erlenda sjóði sem hafa hafið sölu á samningum hérlendis. Það er mikilvægt fyrir ungt fólk að kynna sér mun á samningum og gera sér grein fyrir því hverju það getur tapað við eina undirskrift.
Hvað er hægt að gera? Landssamtök lífeyrissjóða halda úti vefsíðu, lifeyrismal.is, þar sem er hægt að nálgast allar helstu upplýsingar, auk þess sem að lífeyrissjóðirnir eru alltaf tilbúnir í samtal við félaga sína. Skýrari samningar við viðskipavini lífeyrissjóða geta skipt sköpum þegar kemur að sölu óhagstæðra samninga, en það eitt og sér dugir ekki til. Við hvetjum því ungt fólk til að kynna sér þessi mikilvægu réttindi – því fyrr, því betra.