Áherslur ASÍ í menntamálum í tengslum við COVID-19 efnahagskreppuna

Alþýðusamband Íslands leggur áherslu á að breytingar í atvinnulífinu og á vinnumarkaði með nýrri tækni og breyttum atvinnuháttum kalla á nýjar áherslur og breytt vinnubrögð. Þær fela í sér nýjar áskoranir og tækifæri fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélagið allt. Til framtíðar þarf að styðja við og styrkja atvinnulíf sem byggir á heilbrigðum vinnumarkaði, sanngjörnum umskiptum, sjálfbærni, frumkvæði og nýsköpun.

Efnahagskreppan í kjölfar Covid-19 hefur að einhverju marki ýtt undir örari breytingar og kallar á að efnahags- og atvinnulífið sé byggt upp að nýju með skýra framtíðarsýn. Samfélagið þarfnast góðrar hæfni og þar með öflugs menntakerfis sem er í senn fjölbreytt og sveigjanlegt og öllum aðgengilegt.

ASÍ tekur þátt í samhæfingarhópi félags- og barnamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra sem var falið að skoða stöðu atvinnuleitenda og námsmanna og atvinnu- og menntaúrræði þeirra við breyttar aðstæður. Umboð þess hóps er takmarkað, en ASÍ telur að víðtækari stefnumótunar til lengri tíma sé þörf í menntamálum og hæfniþróun og leggur eftirfarandi atriði til grundvallar þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er:

  • Menntakerfið, þ.m.t. símenntun og framhaldsfræðsla, verði kortlagt með hliðsjón af skipulagi, námsframboði, fjármögnun, markhópum, lýðfræði og búsetu. Sérstaklega verði horft til þarfa innflytjenda og annarra viðkvæmra hópa. Í kjölfar kortlagningar verði gerðar tillögur um framtíðarskipulag heildstæðs menntakerfis sem nær til bæði formlegrar og óformlegrar menntunar.
  • Ráðist verði í að bæta söfnun tölfræðiupplýsinga og úrvinnslu gagna sem lúta að færnigreiningum. Nauðsynlegt er að fyrir liggi góð þekking, greining og mat á starfstækifærum í einstökum fögum, atvinnugreinum og störfum til nokkurra ára svo að hægt verði að móta heildræna stefnu í mennta-, vinnumarkaðs- og atvinnumálum.
  • Aukin áhersla verði lögð á starfsmenntun á öllum skólastigum, samhliða því að stuðla að gagnrýnni hugsun og nýsköpun. Sérstaklega verði nemendum kynnt tækifæri í verk- og tæknigreinum, heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu og menntakerfinu. Tryggt verði nægilegt framboð á starfsnámi á framhaldsskólastigi og aukið verulega fjármagn til Vinnustaðanámssjóðs til að tryggja betri nýtingu sjóðsins og stöðu þeirra sem eru á námssamningum. Komið verði á fagháskólastigi með formlegum hætti sem m.a. auðveldi aðgang starfsmenntaðra að háskólum. Markmið með þróun fagháskólanáms er að koma til móts við síbreytilegar og vaxandi þarfir atvinnulífsins fyrir fjölbreyttari menntun.
  • Framboð símenntunar verði aukið með þarfir einstaklinga, vinnumarkaðar og nútímasamfélags í huga. Tryggja þarf að einstaklingar hafi úrræði til að bæta færni þróa nýja færni til að geta skipt um störf og starfsvettvang. Markmiðið er að allir á vinnumarkaði njóti góðs af áhrifum tæknibreytinga í atvinnulífinu.
  • Raunfærnimat verði aukið á öllum skólastigum og aðgengi einstaklinga að námi og þjálfun í framhaldi af raunfærnimati verði tryggt. Raunfærnimat er eitt öflugasta tækið sem þróað hefur verið til að meta færni fólks á vinnumarkaði og jafnframt hvetja til frekara náms.
  • Efla þarf rafræna upplýsingamiðlun um nám og störf og rafræna náms- og starfsráðgjöf þar sem byggt er á styrkleikum einstaklinganna og áhugasviðum, og mögulegum náms- og atvinnutækifærum til framtíðar. Þróa þarf aðferðir til að ná til þeirra einstaklinga sem hafa þörf á að nýta sér þessa þjónustu. Jafnframt þarf að bjóða uppá heildstætt fjarnám sem kost í framhaldsfræðslu, í framhaldsskólum og háskólum.
  • Fara þarf strax í endurskoðun laga um menntun og námslána- og styrkjakerfi þannig að hvoru tveggja þjóni markmiðum um eflingu menntunar og tækifæri fyrir alla óháð efnahag. Í breyttu umhverfi mennta- og atvinnulífs þurfa lögin að vera í samræmi við nýjar aðstæður. Nauðsynlegt er að aðilar vinnumarkaðar eigi formlega aðild að þeirri endurskoðun.
  • Að þegar í stað verði skipaður starfshópur á vegum stjórnvalda sem verði falið að móta hæfnistefnu fyrir Ísland líkt og í nágrannalöndunum. Í hópnum eigi sæti aðilar vinnumarkaðar, menntakerfis og stjórnvalda. Markmið stefnunnar verði að tryggja að framboð af námi og fræðslu sé í samræmi við þarfir samfélagsins hverju sinni og hagsmuni vinnandi fólks. Jafnframt að mótuð verði stefna með aðgerðum, til að bæta samspil menntakerfis og vinnumarkaðar.