Ályktun miðstjórnar ASÍ um aðstoð við Grindvíkinga

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hvetur stjórnvöld til að hraða allri vinnu vegna þess vanda sem Grindvíkingar standa frammi fyrir sökum náttúruhamfara í heimabyggð þeirra. Við núverandi aðstæður geta stjórnvöld ein skapað festu og fyrirsjáanleika í lífi Grindvíkinga sem er mikilvægasta forsenda þess að fólk fái staðið af sér áfall af þessari stærðargráðu.

Almenningur er einhuga í stuðningi sínum við íbúa Grindavíkur. Þegar slíkir atburðir verða sem umbylta lífi þúsunda manna er mikilvægast að viðbrögð yfirvalda miði að því að eyða óvissu um afkomu og framtíð og vinni þannig gegn þeim þrúgandi áhyggjum sem óhjákvæmilega skapast.

Hér er þörf á heildstæðri nálgun. Mikilvægt er að stjórnvöld skapi forsendur til þess að  Grindvíkingar fái ráðrúm til að íhuga stöðu sína. Trúlegt er að margir vilji fá svigrúm til að taka ákvarðanir um eigin framtíð eftir því sem atburðum vindur fram á hamfarasvæðinu. Virða ber sjálfsákvörðunarrétt fólks við þessar erfiðu aðstæður. Óráðlegt er að hrapa að bindandi ákvörðunum fyrir stóra hópa hóps hvað þá heilt bæjarfélag við þær aðstæður sem nú ríkja.

Festu og fyrirsjáanleika í lífi Grindvíkinga geta stjórnvöld best tryggt með því að fá öllum sem vilja öruggt húsnæði til framtíðar. Jafnframt verða stjórnvöld að eyða ótta og óvissu með því að ganga eins hratt til verks og mögulegt er í því skyni að tryggja fjárhagslega framtíð Grindvíkinga. Þetta tvennt telur miðstjórn forsendu þess að íbúum Grindavíkur gefist ráðrúm til að hugleiða framtíð sína.

Rætt hefur verið um sérstaka lagasetningu til að bregðast við vanda Grindvíkinga. Miðstjórn telur blasa við að þá leið beri að fara og að þannig megi hratt og örugglega sefa ótta vegna afkomu og framtíðar. Sértækra aðgerða vegna fjárhagslegra skuldbindinga Grindvíkinga er augljóslega þörf og þær munu líklega kalla á lagasetningu.

Miðstjórn áréttar að málið þolir enga bið og ítrekar að mikilvægasta verkefni stjórnvalda er nú að bregðast við áhyggjum, ótta og kvíða. Ekki er forsvaranlegt að þvinga fram ákvarðanir fólks um líf sitt og framtíð við þær aðstæður.