Ályktun miðstjórnar ASÍ um efnahags- og atvinnumál

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu launafólks og atvinnuleitenda með haustinu í ljósi atvinnuástandsins. Stuðningi stjórnvalda hefur verið beint til fyrirtækja fremur en fólks. Mikilvægasta aðgerðin til að milda áhrifin fyrir einstaklinga og heimili, og þannig fyrir efnahagslífið, er að hækka atvinnuleysisbætur og lengja tímabil tekjutengingar. Þá verður að grípa til almennra aðgerða til að verja heimilin. Miðstjórn ASÍ fer fram á að stjórnvöld taki af skarið um úrbætur þegar í stað.

Miðstjórn ASÍ hafnar öllum tillögum sem lúta að því að senda reikninginn vegna björgunaraðgerða stjórnvalda í tengslum við Covid-kreppuna til almennings á næstu árum, hvaða nafni sem slíkar tillögur eru nefndar. Það er engin efnahagsleg nauðsyn að skera niður í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfinu, selja opinberar eigur, auka gjaldtöku eða ráðast í einkavæðingu eða einkarekstur. Slíkar aðgerðir eru allar til þess fallnar að dýpka kreppuna og auka á afkomu- og skuldavanda einstaklinga og heimila.

Miðstjórn ASÍ áréttar að stjórnvöld hafa ekki staðið við sinn hluta lífskjarasamninganna, m.a. því er lýtur að húsnæðismálum, verðtryggingu, mansali og félagslegum undirboðum og sektarákvæðum vegna kjarasamningsbrota. Forsendur lífskjarasamninganna eru samkvæmt orðanna hljóðan brostnar og farið er fram á viðræður um samningana og þau loforð sem þar eru gefin. ASÍ mun standa vörð um almannahagsmuni og kjör og réttindi launafólks og atvinnuleitenda í þeim viðræðum.