Á fundi aðalstjórnar Einingar-Iðju sem fram fór fyrr í vikunni var eftirfarandi ályktun samþykkt.
Stjórn Einingar-Iðju fordæmir aðgerðir ræstingafyrirtækja sem fela í sér skerðingu á kjörum, öryggi og starfsaðstæðum ræstingafólks sem starfar hjá þeim.
Við gerð kjarasamninga í fyrra ríkti um það einhugur hjá samningsaðilum að bæta sérstaklega launakjör ræstingafólks. Þannig var samið um að hækka þáverandi laun sérstaklega, enda samhljómur um að gera þyrfti betur fyrir þennan hóp, sem sinnir gífurlega erfiðu grunnstarfi í þágu samfélagsins. Án ræstingafólks verður ekki haldið opnum heilbrigðisstofnunum, umönnunarheimilum, skólum og svo mætti lengi telja.
Í kjarasamningum ræstingarfólks er ákvæði sem kallast tímamæld ákvæðisvinna, en samkvæmt því er gert ráð fyrir að starfsfólkið klári tiltekin þrif innan ákveðinna tímamarka, sem yfirleitt kalli á aukinn vinnuhraða. Fyrir það á að greiða 20% álag ofan á tímakaup.
Fjöldi félagsmanna hafa leitað til félagsins vegna þess að búið er að taka af þeim þessa álagsgreiðslu þrátt fyrir að þurfa að klára sömu þrif innan sömu tímamarka.
Varða- Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins hefur kannað fjárhagsstöðu, heilsu og réttindabrot meðal þeirra sem starfa við ræstingar og kemur m.a. fram í niðurstöðum að fjárhagsstaða þeirra sem starfa við ræstingar er verri en annars launafólks og heilsa þeirra sem starfa við ræstingar mælist auk þess einnig verri.
Stjórn Einingar-Iðju tekur heilshugar undir sameiginlega yfirlýsingu frá Starfsgreinasambandi Íslands, Eflingu stéttarfélagi og Alþýðusambandi Íslands þar sem siðlaus framganga gagnvart ræstingafólki er fordæmd. Við krefjumst þess að ef fyrirtækin láta ekki af hegðun sinni grípi sveitafélög og ríki inn í með aðgerðum, sem þeim er siðferðilega skylt að gera.