Rúmlega 240 manns tóku þátt í ársfundi FA, sem var haldinn fimmtudaginn 13. nóvember s.l. á Grand hótel og í streymi. Á fundinum var lögð áhersla á hvernig íslenskukunnátta innflytjenda hefur áhrif á aðgengi þeirra að samfélaginu og velt upp áskorunum og tækifærum í tengslum við íslenskunám. Yfirskrift fundarins að þessu sinni var Tengjum saman – fjölbreytileiki, lærdómur, vöxtur en hann er haldinn í samstarfi við NLL, Norrænt tengslanet um nám fullorðinna.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, opnaði fundinn þar sem hann lagði áherslu á að innflytjendur væru ekki einn hópur og því þurfi að vera til staðar bæði formlegar og óformlegar leiðir til íslenskunáms. Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri FA, og Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði SA, fóru yfir það fjármagn sem fer í þennan málaflokk og kölluðu eftir yfirsýn og stefnu. Olga Orrit, sérfræðingur hjá Miðstöð í færniþróun í Svíþjóð sagði frá farsælu verkefni í Svíþjóð þar sem starfsfólk er þjálfað sem tungumálafulltrúar á vinnustað.
Tvö pallborð voru á fundinum þar, í því fyrra ræddu Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, um stefnu, umgjörð og aðgengi innflytjenda að íslenskunámi og jöfnum tækifærum til náms.
Í seinna pallborði var rætt um íslenskufærni á vinnustað, tækifæri og áskoranir. Þar fóru Wendill Galan Viejo, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á menntadeild Landspítalans, Ásta Bjarnadóttir, skrifstofustjóri starfsþróunar og starfsumhverfis hjá Reykjavíkurborg, Helga Fjóla Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Hornsteini, og Ólöf Guðmundsdóttir, hótelstjóri Hilton Reykjavik Nordica, yfir stöðuna á sínum vinnustöðum.
Einnig var fyrirmyndum í námi fullorðinna veitt viðurkenning, en Honeyly Abrequino Limbaga frá Mími, símenntun og Sunna Rae George, frá Þekkinganeti Þingeyinga, fengu þær viðurkenningar að þessu sinni.
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er samstarfsvettvangur í fullorðins- og framhaldsfræðslu á íslenskum vinnumarkaði. Alþýðusambandið hefur ávallt lagt mikla áherslu á menntun og er einn eigenda FA, ásamt SA, BSRB, SÍS og Fjármála og efnahagsráðuneytinu. Megin hlutverk FA er veita þeim sem ekki hafa lokið námi frá framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Þar sem um er að ræða um fjórðung alls fólks á vinnumarkaði er ljóst að verkefnin eru bæði umfangsmikil og fjölbreytt.