Ársskýrsla Fræðslusmiðstöðvar atvinnulífsins (FA) fyrir árið 2024 er komin út á rafrænu formi. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er samstarfsvettvangur í fullorðins- og framhaldsfræðslu á íslenskum vinnumarkaði. Alþýðusambandið hefur ávallt lagt mikla áherslu á menntun og er einn eigenda FA, ásamt SA, BSRB, SÍS og Fjármála og efnahagsráðuneytinu. Megin hlutverk FA er veita þeim sem ekki hafa lokið námi frá framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Þar sem um er að ræða um fjórðung alls fólks á vinnumarkaði er ljóst að verkefnin eru bæði umfangsmikil og fjölbreytt.
Ár mikilla framfara og nýsköpunar
Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri FA, segir m.a. í skýrslunni að árið 2024 var ár mikilla framfara og nýsköpunar í framhaldsfræðslunni, sem er fimmta stoð menntakerfisins. Þróunarvinna byggist sem áður á náni samvinnu og samstarfi við ýmsa hagaðila. Mikil aukning hefur orðið í gerð starfaprófíla í tengslum við nýja kjarasamninga sem fela í sér ákvæði um hæfnilaunakerfi og útgáfu Fagbréfa til vottunar á færni í starfi fjölgar stöðugt. Fyrsta keyrsla náms og starfsþjálfunar fyrir fatlað fólk var framkvæmd í nánu samstarfi við símenntunarmiðstöðvar, Vinnuálastofnun og Fjölmennt. Umfangsmikil undirbúningsvinna gagna og ferla lá hjá FA. Þá hefur sýnt sig að uppbrot námskráa hefur aukið sveigjanleika náms á vettvangi fyrir ýmsa hópa, þar á meðal innflytjenda sem hefur fjölgað mjög innan framhaldsfræðslunnar.
Í ársskýrslunni er að finna yfirlit yfir starfsemina og tölur yfir árangur starfsins á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Alls luku 2.657 einstaklingar námi sem er 15% aukning frá árinu áður og af þeim voru 51% með erlendan ríkisborgararétt. Samtals fóru 580 einstaklingar í gegnum mat á raunfærni á árinu og 9.087 ráðgjafarviðtöl um nám og störf fóru fram.
Fram kemur í ávarpi Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra, að fullorðnu fólki þarf að standa til boða nám sem eflir grunnleikni og hæfni fyrir framtíðina með auknu aðgengi að sí- og endurmenntun og mati á raunfærni.