Á vef ASÍ segir að þrátt fyrir hagfellt samspil heimsmarkaðsverðs olíu og gengis bera lægstu verð íslenskra olíufélaga þess ekki merki. Verð stærstu olíufélaganna breytast iðulega á sama tíma, og þá jafn mikið.
Styrking krónu gengur neytendum úr greipum
Greiningaraðilar hafa, á síðustu misserum, greint frá róstusömum tíum á heimsmarkaði með olíu. Opec+ ríkin hafa aukið við framleiðslu sína, en átök í Vestur-Asíu og væringar vestanhafs hafa einnig leitt til verðsveiflna. Sem stendur er bensín til afhendingar í New York höfn nú jafn dýrt og í upphafi árs, þegar greitt er með Bandaríkjadollar. Styrking íslensku krónunnar gagnvart dollar veldur því að sami bensínlítri hefur lækkað um tæp 14% í krónum talið, það sem af er ári.
Frá janúar 2025 til fyrri hluta ágústmánaðar hefur mánaðarmeðaltal lægsta verðs innanlands einungis lækkað um 2,5%, samanborið við 13,7% lækkun heimsmarkaðsverðs í krónum. Styrking krónunnar gengur íslenskum neytendum því úr greipum.
Samstilltar verðhreyfingar
Þegar litið er til lægsta verðs innan hvers olíufélags eru glögg merki um samræmda verðlagningu meðal fyrirtækja. Atlantsolía, N1, Orkan og ÓB auglýsa sérstaklega afgreiðslustöðvar, þar sem boðið er upp á lægsta verð innan fyrirtækis.1. Þar fylgjast verðlag og -breytingar að.
Olís og Costco skilja sig frá þessari þyrpingu, en þó með öfugum formerkjum. Lægsta verð Olís var 22 krónum hærra en á afsláttarstöðvunum hjá fyrrnefndum félögum, í byrjun mánaðar. Costco býður sem fyrr upp á ódýrasta bensínið (267,7 ISK) á sinni einu stöð.
Ólík þekja ódýrustu afgreiðslustöðva
Hlutfall og fjöldi afsláttarstöðva er mismunandi milli fyrirtækja. Fyrir neytendur þýðir það að erfitt getur reynst átta sig á hver býður lægsta verð og hvar það fæst. Mikill verðmunur getur því verið á bensínlítra milli stöðva hjá sama fyrirtæki. Orkan býður lægsta verð á flestum stöðvum af heildarfjölda (12 stöðvar), en hlutfallslega eru þær flestar hjá Atlantsolíu þar sem um 40% stöðva bjóða upp á lægsta verð. N1 er með fæstar hlutfallslega (7,3%) af þeim félögum sem skrá sérstaklega afsláttarstöðvar.
Afgreiðslustaðir sem bjóða upp á lægsta verð og verðmunur innan fyrirtækja*
Olíufélag | Fjöldi stöðva sem bjóða upp á lægsta verð | Hlutfall stöðva sem bjóða upp á lægsta verð | Mesti verðmunur innan fyrirtækis |
Atlantsolía | 10 | 40,0% | 28,9 |
Costco | 1 | 100,0% | 0 |
N1 | 6 | 7,3% | 36 |
Olís | 1 | 5,3% | 13,9 |
Orkan | 12 | 16,4% | 28,9 |
ÓB | 9 | 19,1% | 28,9 |
* 1. ágúst 2025
Heimildir