Á heimasíðu ASÍ segir að þann 1. janúar sl. voru gerðar kerfisbreytingar á gjaldtöku af akstri bifreiða sem fólust í afnámi krónutölugjalda á jarðefnaeldsneyti og upptöku kílómetragjalds fyrir hvern ekinn kílómetra. Samhliða því hækkaði kolefnisgjald á eldsneytislítra. Samantekið leiðir breytingin til hærri rekstrarkostnaðar smærri og eyðsluminni bíla en dregur úr kostnaði þeirra stærri. Á áramótum lækkaði bensín að jafnaði um tæplega 97 krónur sem er í samræmi við væntingar ASÍ. Sé samsetning olíuverðs hins vegar skoðuð yfir tíma benda þróunin til þess að hlutur olíufélaga í bensínlítranum hafi farið vaxandifrá 2021, og sé sögulega mikill.
Um áramótin tók í gildi kerfisbreyting á gjaldtöku ökutækja. Fyrir fólksbíla undir 3.500 kg er nú greitt 6,95 króna kílómetragjald fyrir hvern ekinn kílómetra en á móti var gerð breyting á innheimtu gjalda á bensín- og díselverð sem fólst í því að almennt og sérstakt bensíngjald sem áður hefur verið innheimt við eldsneytiskaup var afnumið. Fyrir breytingu námu gjöldin samtals 134,9 krónum á hvern lítra af bensíni með virðisaukaskatti, en íblöndun etanóls sem ber ekki vörugjöld leiðir til þess að fjárhæðin er í raun lægri, eða um 124,1 króna miðað við 8% íblöndun. Á móti er kolefnisgjald hækkað um nærri þriðjung, eða úr 20,7 krónum á lítra í 27 krónur með virðisaukaskatti.
Sjá má breytingu á samsetningu bensínverðs á meðfylgjandi mynd, þar sem miðað er við bensínverð í lok árs 2025 og upphafi árs 2026. Á myndinni er miðað við að íblöndunarhlutfall sé 8%. Við breytinguna falla bensíngjöldin út, kolefnisgjaldið hækkar og virðisaukaskattur reiknast af nýjum grunni.
Áhrif kerfisbreytinganna á heimili ráðast af samspili aksturs og bensínnotkunar bifreiða. Allir bílar undir 3.500 kg bera sama kílómetragjald á meðan bensíneyðsla getur verið mjög breytileg milli bíltegunda. Á myndinni að neðan má sjá áhrif breytinganna á þrjá algenga bíla á ólíkum aldri og í ólíkum stærðarflokki.
Fyrir kerfisbreytinguna kostaði um 1.548 krónur að keyra 100 km á 2025 árgerð af Toyota Yaris. Uppgefin bensíneyðsla nemur 5,5 ltr. á hundrað kílómetra. Eftir kerfisbreytinguna, mun sami bíll greiða 695 krónur í kílómetragjald en á móti lækkar bensínkostnaður um 530 kr. Við kerfisbreytinguna hækkar rekstrarkostnaður bílsins um 163 krónur á hverja hundrað kílómetra. Á ársgrundvelli getur rekstrarkostnaður hækkað um 25-30 þús. krónur m.v. meðalakstur.
Áhrif kerfisbreytingar eru mun meiri ef bíllinn er eyðslufrekari, þá gjarnan stærri eða þyngri bílar. Sem dæmi kostaði 3.743 krónur að keyra 100 km á 2025 árgerð af Toyota Land Cruiser sem eyðir að jafnaði 13,3 lítrum á hundrað kílómetra. Eftir breytingu mun hann greiða 695 krónur í kílómetragjald á hverja 100 kílómetra en bensínkostnaður lækkar um 1.286 krónur við afnám bensíngjalda. Samantekið lækkar rekstrarkostnaður um 591 krónur á hverja hundrað kílómetra og getur lækkunin numið 100-120 þúsund á ársgrundvelli.
Hagfræði- og greiningasvið ASÍ áætlar að kerfisbreytingin ætti að óbreyttu að leiða til um 97 króna lækkunar á bensínverði og gerir þar ráð fyrir að íblöndunarhlutfall sé 8%. Bensínverð byrjaði að taka breytingum strax á gamlársdag og höfðu allir smásalar breytt verðum 2. janúar. Hjá öllu smásölum lækkaði verð um 96,2 – 96,6 krónur eða að mestu í samræmi við væntingar ASÍ.
Verð á bensíni hefur að mestu verið óbreytt frá áramótum, ef frá er talin lækkun á bensínverði í Costco þann 8. Janúar, þegar lítrinn lækkaði úr 171,1 krónu í 168,1 krónu.
Það eldsneytisverð sem neytendur greiða samanstendur af innkaupsverði, opinberri gjaldtöku í formi vöru- og kolefnisgjalda, virðisaukaskatti og svo álagningu olíufélags. Innkaupsverð á hverjum tíma ræðst af samspili heimsmarkaðsverðs og gengi krónunnar. Líta má á hlut olíufélagsins sem þá framlegð sem félagið þarf til að standa undir föstum og breytilegum kostnaði við sölu eldsneytis ásamt arðsemi. Ekki liggja fyrir gögn um annan kostnað olíufélaga en þó mat Samkeppniseftirlitið að kostnaður við birgðahald og dreifingu væri um 4 kr. á lítra árið 2022.
Með tilkomu Costco á eldsneytismarkað, aukinni samkeppni frá Atlantsolíu og lækkunum á heimsmarkaðsverði í kjölfar heimsfaraldurs dró úr álagningu á eldsneyti á Íslandi. Þetta var meðal þess sem fram kom í framlegðargreiningu Samkeppniseftirlitsins árið 2022. Þar er bent á að eldsneytisverð án skatta og gjalda væri eitt það hæsta í Evrópu og álagning umtalsvert meiri en í samanburðarlöndum1. Mat eftirlitið að álagning hefði lækkað úr 42-51 krónum á lítra á árunum 2017-2019 og verið orðin 27-47 krónur árin 2020-2022. Áhrifin væru þó ólík eftir og háð staðbundinni samkeppni.
Greining Samkeppniseftirlitsins nær fram á mitt ár 2022 og var framkvæmd í kjölfar mikilla verðhækkana sem fram komu á hrávörumörkuðum eftir innrás Rússa í Úkraínu og leiddu til 35% hækkunar á bensínverði á sex mánaða tímabili á árinu 2022. Framangreindar hækkanir á hrávörumörkuðum áttu eftir að ganga til baka og hefur samspil þróunar á heimsmarkaðsverði og gengisþróun leitt til lægra innkaupsverðs á eldsneyti.
Ekki liggja fyrir opinber gögn um kostnaðarliði olíufélaga né nákvæmt innkaupsverð. Hins vegar má nálgast hlut olíufélaga með því að draga skatta, opinber gjöld og áætlað innkaupsverð frá smásöluverði. Með innkaupsverði er miðað við heimsmarkaðsverð á bensíni í íslenskum krónum. Sjá má samsetningu eldsneytisverðs á myndinni að ofan miðað við meðaltal lægstu verða. Tölurnar gefa til kynna þróun á hlut olíufélaga í lægstu lítraverðum, þ.e. þann hlut sem stendur undir öllum öðrum kostnaði við sölu auk arðsemi.
Tölurnar gefa til kynna að sú lækkun á álagningu sem mældist eftir innkomu Costco og aukna fótfestu Atlantsolíu á markaði hafi gengið til baka í kjölfar þeirra verðsveiflna sem komu fram í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Þróunin bendir til þess að lækkun á innkaupaverði hafi ekki skilað sér í sama mæli í smásöluverði og hlutur olíufélaga aukist. Leiðrétt fyrir verðlagsþróun er hlutur olíufélaga nú hærri en fyrir innkomu Costco á markaðinn. Jafnframt hefur hlutur olíufélaga aukist frá 2023 sé leiðrétt fyrir verðlagsþróun, en ASÍ hefur áður bent á að smásöluverð hafi ekki lækkað í takt við lækkun heimsmarkaðsverðs og gengisþróunar2.