Mikilvægt er að stefnumörkun stjórnvalda um aukna verðmætasköpun hafi það að markmiði að viðhalda jöfnuði og tryggja öllum hópum samfélagsins sanngjarna hlutdeild í verðmætasköpuninni. Hagvöxtur og verðmætasköpun er ekki trygging fyrir bættum hag almennings.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í sameiginlegri umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB um þau áform ríkisstjórnarinnar að móta atvinnustefnu til ársins 2035.
Almennt telja samtökin boðaða atvinnustefnu fagnaðarefni og segja hana fallna til að samræma stefnumótum í þeim málaflokkum sem stutt geta við verðmætasköpun og góð lífskjör hér á landi.
Samtökin leggja þunga áherslu á jöfnuð og skipulagðan vinnumarkað í umsögn sinni. Þar segir:
„Samtökin telja brýnt að stefnumörkun stjórnvalda um aukna verðmætasköpun hafi það að markmiði að viðhalda jöfnuði og tryggja öllum hópum samfélagsins sanngjarna hlutdeild í verðmætasköpuninni. Það er mat ASÍ og BSRB að til að markmið stefnumörkunarinnar nái fram að ganga þurfi að efla grunnstoðir vaxtar með markvissri uppbyggingu innviða, félagslegum stuðningskerfum, mannauði með þekkingu og færni auk sterks rannsóknar- og nýsköpunarumhverfis.“
Skipulagður vinnumarkaður og sterk verkalýðshreyfing
Fjallað er um grunnforsendur þess að framleiðnivöxtur og samkeppnishæfni geti af sér bætt lífskjör almennings á Íslandi. „Hagvöxtur og verðmætasköpun er ekki trygging fyrir bættum hag almennings. Grunnforsenda þess að framleiðnivöxtur og ábati aukinnar samkeppnishæfni leiði til bættra lífskjara almennings er skipulagður vinnumarkaður þar sem ábata er deilt í gegnum frjálsra kjarasamninga, með sterkri verkalýðshreyfingu og almennri stéttarfélagsaðild, sem stutt er með traustu regluverki og stofnunum sem standa vörð um réttindi launafólks.“
Auðlindanýting án viðeigandi stefnumörkunar
Í umsögninni leggja samtökin áherslu á mikilvægi nýsköpunar og stuðning stjórnvalda við rannsóknir. Þá segir í kafla um auðlindamál að mörg dæmi þess þekkist hér á landi að hraður vöxtur atvinnugreina sem byggja á auðlindanýtingu hafi farið fram án viðunandi stefnumörkunar af hálfu hins opinbera. „Atvinnustefnu á að tengja stefnu um orku- og auðlindanýtingu með forgangsröðun í þágu atvinnustarfsemi sem skapar fjölbreytt, vel launuð og góð störf sem samfélagsleg sátt ríkir um.“
Mannekla og innviðir
Þá fjalla samtökin i umsögn sinni um mikilvægi öflugra grunniðnviða við atvinnusköpun um land allt og segja að samhliða mótun og framkvæmd atvinnustefnu þurfi að byggja upp og styrkja félagslega innviði. „Tryggja þarf aðgengi allra íbúa landsins að opinberri heilbrigðis- og félagsþjónustu og öflugu menntakerfi óháð efnahag. Mikil samkeppni er um vinnandi fólk um allan heim og aðgengi að húsnæði, leikskólum, heilbrigðisþjónustu og stuðningur við fjölskyldur auka aðdráttarafl íslensks vinnumarkaðar og skipta máli þegar fólk velur sér starfsvettvang og búsetu.
Viðvarandi mannekla í heilbrigðis- og félagsþjónustu hefur dregið úr gæðum þjónustunnar og haft neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku á íslenskum vinnumarkaði, sérstaklega kvenna. Uppbygging þessarar þjónustu verður að vera liður í atvinnustefnunni svo að markmið hennar náist.“