ASÍ sendir ákall til forsætisráðherra

Fyrr í dag sendi Drífa Snædal, forseti ASÍ, meðfylgjandi bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem ráðherann er hvattur til að beita sér fyrir skattlagningu alþjóðlegra risafyrirtækja sem eru með starfsemi um allan heim en borga litla sem enga skatta.

Efni bréfsins fylgir hér fyrir neðan:

Efni: Samningaviðræður G20/OECD um alþjóðlegan fyrirtækjaskatt

Ágæta Katrín,

Með þessu bréfi vil ég hvetja þig til að beita þér alþjóðavettvangi fyrir alþjóðlegri skattlagningu á fyrirtæki sem nú er til umræðu á vettvangi OECD og G20 ríkjanna. Verkalýðsfélög um allan heim senda nú slíka hvatningu á stjórnvöld í aðdraganda fundar G-20 ríkjanna sem fram fer í lok mánaðar. Tillögur í þessa veru njóta víðtæks pólitísks stuðnings, líkt og kristallaðist á G-7 fjármálaráðherrafundinum í upphafi þessa mánaðar, en sérstaklega mikilvægt er að útfærslan verði ekki útvötnuð.

Alþjóðlegur samningur gæti tryggt ríkjum rétt til að skattleggja hagnað fyrirtækja sem verður til innan þeirra lögsögu, óháð því hvaðan fyrirtækið rekur starfsemi sína. Alþjóðlegur lágmarksskattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtæki myndi jafnframt geta bundið enda á víðtækan skattaflótta slíkra fyrirtækja. Talað hefur verið um 15% lágmarksskatt á hagnað fyrirtækja í þessu samhengi en það viðmið er of lágt, líkt og viðurkennt var í sameiginlegri yfirlýsingu fjármálaráðherra Mexíkó, Bandaríkjanna, Indónesíu, S-Afríku og Þýskalands sem birt var fyrir skemmstu. Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að miðað verði við 25% og hvet ég þig til að leggjast á árar með okkur í því sambandi.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um hversu miklum fjármunum almenningur verður af vegna vanskattlagningar á alþjóðleg fyrirtæki. Róttækar aðgerðir á þessu sviði eru grundvöllur viðspyrnu eftir Covid-faraldurinn, sem og forsenda þess að takast á við loftslagsbreytingar. Þá þarf að kalla þessi fyrirtæki til ábyrgðar hvað varðar aðbúnað og réttindi launafólks. Það er löngu tímabært að stöðva kapphlaupið að botninum.

Ég hvet þig og þína ríkisstjórn til að beita sér til góðs í þessum málum.

Virðingarfyllst, Drífa Snædal, forseti ASÍ