Átak gegn kynbundnu ofbeldi - ræða forseta ASÍ í ljósagöngu UN Women

Drífa Snædal, forseti ASÍ, leiddi ljósagöngu UN Women á Alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi í gær, 25. nóvember 2019. Ræða Drífu var flutt á Arnarhóli áður en gangan hófst:

Ég hef alltaf dáðst að því hvað konur eru friðelskandi. Þrátt fyrir aldalangt misrétti og skipulagða kúgun hafa konur ekki gripið til vopna. Þvert á móti hefur baráttan alltaf snúist um að bæta samfélagið án blóðsúthellinga, fræða, ræða og þrýsta á um breytingar. Stofnaðir hafa verið stjórnmálaflokkar, kvennaathvörfum komið á fót og baráttusamtök stofnuð, svo mörgum að varla finnst kona á Íslandi sem ekki er í einhverjum samtökum sem hafa það á stefnuskránni að koma á jafnrétti kynjanna. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa lýst vandlætingu á kynjamisrétti og varla finnst nokkur manneskja sem mælir slíku bót. Samt eru laun kvenna kerfisbundið lægri en karla, kynbundið ofbeldi er staðreynd og konur ná síður framgangi en karlar. Hið dulda kerfi sem er svo óskaplega erfitt að vinna á köllum við feðraveldi.

Feðraveldið birtist í sinni tærustu mynd þegar stjórnmálamenn hampa jafnréttisparadísinni Íslandi á sama tíma og þeir tala um konur eins og nytjahluti og meta þær eftir útliti. Feðraveldið birtist líka þegar minnt er á það að karlar hjálpa körlum að arðræna og svíkja þjóðir úti í heimi og viðbrögðin eru „það er nú óþarfi að kyngera þetta“. Og feðraveldið birtist þegar minnt er á kynbundið ofbeldi en það verður alltaf að taka fram hið sjálfsagða að ekki allir karlar nauðga. Allir eru fylgjandi jafnrétti í orði en við verðum öll vör við andstöðuna í hinu smáa. Kynjamisrétti er þannig hversdagslegt og svo algengt að ýmsir eiga erfitt með að greina það.

Á vinnumarkaðnum er ofbeldið margskipt. Það birtist í launasetningu, áreitni og möguleikum á vinnumarkaði. Enginn af þessum þáttum verður skilin frá öðrum . Ef þú ert í láglaunastarfi njóta verk þín takmarkaðrar virðingar og það getur þýtt að þú sem einstaklingur njótir ekki virðingar. Ef þú nýtur ekki virðingar er líklegra að þeir sem eru í valdastöðu yfir þér beiti þig ofbeldi. Þetta opinberaðist með skýrum hætti þegar sögur kvenna af erlendum uppruna birtust í „metoo“ byltingunni. Konur sem áttu allt sitt undir voru í verstu stöðunni og urðu fyrir grófasta ofbeldinu. Í rannsókn sem Starfsgreinasambandið lét gera kom þetta berlega í ljós, ofbeldið var grófast þegar yfirmaður beitti undirmanneskju ofbeldi. Það er að segja, það var ofbeldið sem hafði mestar afleiðingar fyrir þolandann. Þetta staðfestir svo ekki varð um villst að völd, virðing og ofbeldi er samofin keðja.

Þegar það varð heyrinkunnugt að Dominic Strauss Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, hafði gert tilraun til að nauðga herbergisþernu á hóteli var kastljósinu beint að einu hættulegasta starfi sem þú getur unnið. Nefninlega því að vera hótelþerna. Þetta er líka meðal þeirra lægst launuðu starfa sem bjóðast alls staðar í heiminum. Starfið er hættulegt vegna mikillar líkamlegrar áreynslu, víða er álagið ómanneskjulegra vegna kröfunnar um hröð vinnubrögð og svo er það hættan á ofbeldi. Mál Dominic Strass Kahn varð til þess að verkalýðshreyfingin víða um heim fór í herferð til að bæta kjör og aðbúnað herbergisþerna. Þetta varð einfaldlega tilefni til að gera óviðunandi stöðu sýnilega og til að krefjast úrbóta. Þannig verða einstaka mál til að gera hið ósýnilega sýnilegt við og við en það reynist þrautin þyngri að vinna á sjálfu feðraveldinu. Stundum finnst mér það eins og fljót sem finnur sér nýjan farveg við fyrirstöðu. Þegar launataxtar voru ekki lengur annars vegar fyrir konur (þeir lægri) og hins vegar fyrir karla (þeir hærri) birtist launamunurinn á annan hátt. Í betri störfum, meiri yfirvinnu, bifreiðastyrkjum og alls konar. Þegar það er ekki lengur í lagi að vera karlremba opinberlega þá er það gert í lokaðri hópum á börum.

Fyrir mér er það fullkomlega óhugsandi að ræða kynjajafnrétti án þess að ræða líka völd, virðingu og stéttarmun. Því sem haldið var fram á níunda áratugnum að ofbeldi þrifist í öllum stéttum er vissulega rétt. En það er bara svo miklu hættulegra að vera kona sem kann ekki tungumálið, að vera kona sem á landvistarleyfi undir atvinnurekanda eða eiginmanni eða kona sem er virt svo lítils að hún stritar á lágmarkslaunum.
En þó baráttan virðist stundum erfið og hræðileg og taka mörg bakslög þá gerast líka dásamlegir hlutir. Til dæmis eru margir karlar hættir að standa í skugga baráttunnar og ákveða að taka þátt, af því jafnara samfélag er betra samfélag.

Í sumar naut ég þess að fylgjast með vinnu við nýjan sáttmála Alþjóða vinnumálastofnunarinnar gegn ofbeldi. Í samningaviðræðunum voru fulltrúar úr öllum heiminum sem sögðu frá sínum veruleika. Sérstaklega voru átakanlegar frásagnir kvenna sem sinna heimilisstörfum á Vesturlöndum, kvenna sem vinna við götusölu í Afríku og ruslflokkun í Suður-Ameríku. Konur sem eru á jaðrinum á vinnumarkaðnum og ofurseldar atvinnurekendum, viðskiptavinum, stjórnvöldum og í sumum tilvikum lögreglunni. Þinginu lauk með því að þriggja ára vinna skilaði sér í nýjum sáttmála, nýju heimsviðmiði um öryggi í heimi vinnunnar. Og það var dansað og sungið inni í virðulegum fundarsal í Genf og raddir kvenna úr öllum heiminum ómuðu saman í bjartsýni og sigurgleði. Enn eitt skrefið tekið í átt að jafnrétti í gegnum friðsama baráttu, þrýsting, samningaviðræður og einurð.

Nú liggur fyrir að Ísland þarf að fullgilda sáttmálann og verður vonandi eitt af fyrstu ríkjum veraldar til að gera það. Þannig getum við ekki aðeins sett ný viðmið hér heima um ábyrgð og aðstoð í ofbeldismálum heldur leggjum okkar lóð á vogaskálarnar fyrir heimsbyggðina. Því fleiri ríki sem fullgilda, því meiri þyngd í sáttmálanum. Og það er ekkert verra að Íslendingar sýni smá ábyrgð í alþjóðamálum á þessum síðustu og verstu tímum.

En kæru áheyrendur. Ég hóf mál mitt með því að dáðst að friðsamlegri baráttu kvenna í gegnum tíðina. En friðsamleg barátta krefst ótrúlegrar seiglu og þrautseigju. Við verðum sífellt flinkari í því en við skulum ekki halda í eina sekúndu að þó allir séu fylgjandi jafnrétti í orði þá sé það svo í raun. Þeir sem völdin hafa gefa þau ekki frá sér af eigin rammleik. Þetta á við um alla í valdastöðu, hvort sem völdin eru bundin kyni, stétt eða hnattfræðilegri stöðu.
Kæru bræður og systur. Höldum áfram okkar friðsamlegu baráttu en gerum okkur um leið grein fyrir því að þetta er barátta. Þó misrétti hafi alltaf verið til staðar er ekki lögmál að svo verði áfram. Setjum ný viðmið, búum til nýjan sáttmála, höfnum níðingsskap í hvaða mynd sem er og tökum völdin af þeim sem hafa ekkert með þau að gera.

Til hamingju með daginn!