Eins og áður hefur komið fram á síðunni þá er Bjarg íbúðafélag að byggja 16 leiguíbúðir við Langamóa 1-3 í Móahverfi á Akureyri.
Framkvæmdir hófust í apríl sl. og er áætlað að íbúðirnar verði tilbúnar á tveimur mismunandi dagsetningum, júlí 2026 og nóvember 2026. Vert er að minna áhugasama á að núna er opið fyrir umsóknir. Á heimasíðu Bjargs fá finna eftirfarandi upplýsingar varðandi hvernig sótt er um:
Umsókn um íbúð gerist í tveimur skrefum og gerist rafrænt á heimasíðu Bjargs í gegnum "mínar síður". Fyrst skráir umsækjandi sig inn á biðlista hjá Bjargi íbúðafélagi. Skráningum á biðlista er raðað upp í þeirri röð sem þær berast og virkjast þegar greiðsla staðfestingargjalds er frágengin. Í hvert sinn sem íbúðir eru lausar til umsóknar sendir Bjarg póst á alla á biðlista með nánari upplýsingum. Ef áhugi er á tiltekinni staðsetningu þarf umsækjandi að senda inn umsókn. Úthlutun hlýtur sá umsækjandi sem uppfyllir öll skilyrði um úthlutun, hefur lægsta númer á biðlista og að teknu tilliti til forgangs, sbr. gr. 4 í úthlutunarreglum.
Verktaki er BF byggingar ehf.
Íbúðirnar eru í tveimur húsum sem eru tvær hæðir, auk sameiginlegrar hjóla- og vagnageymslu. Þar má finna 2ja til 4ra herbergja íbúðir. Gældýrahald er leyft í hluta íbúðanna.
Sjá nánar um íbúðirnar hér.