Dagskrá LÝSU 2019

LÝSA – Rokkhátíð samtalsins verður haldin í þriðja sinn í Hofi á Akureyri 6. og 7. september. LÝSA er fyrir alla þegna samfélagsins og er mikilvægur vettvangur til að ræða málefni líðandi stundar og byggja brú milli almennings, félagasamtaka og stjórnmálafólks. Á hátíðinni fara fram bæði áhugaverðar og mikilvægar umræður sem snerta okkur öll og er markmiðið að hvetja allar stéttir samfélagsins til samtals.

Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess munu taka virkan þátt á LÝSU með mörgum áhugaverðum viðburðum. Á föstudag 6. september kl. 16:00 stendur ASÍ fyrir fundi með yfirskriftinni Er launaþjófnaður goðsögn eða veruleiki? Gerð verður grein fyrir niðurstöðum nýlegrar rannsóknar Hagdeildar á launaþjófnaði og brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Þá verðu kynnt ný rannsókn á vegum ASÍ sem byggir á viðtölum við útlendinga á íslenskum vinnumarkaði þar sem varpað er frekara ljósi á umfang og eðli launaþjófnaðar og brotastarfsemi á vinnumarkaði.

ASÍ og ASÍ-UNG verða með dagskrá á Götubarnum að kvöldi 6. september þar sem boðið verður upp á söng, mat og stórkostlega skemmtun. Fjörið byrjar kl. 18.30 þegar gestum og gangandi verður boðið upp á glóðarsteiktar pylsur að hætti Norðlendinga. Meðan gestir gæða sér á dásemdunum verða spilaðir skemmtilegir söngvar sem munu vekja baráttuhug og gleði viðstaddra. Klukkan 20.00 mun svo ASÍ UNG taka við með pubquiz. Áhugasamir verða þá spurðir spjörunum úr um allt sem viðkemur verkalýðnum og baráttunni undanfarin 100 ár eða svo. Að því loknu, kl. 21.00 verður gítarinn svo tekinn aftur fram þegar Vandræðaskáld stíga á stokk og kyrja alla gömlu góðu verkalýðs- og baráttusöngvana.

Einnig er vert að benda á tvo fundi sem félög iðnaðarmanna innan ASÍ standa fyrir. Föstudaginn 6. september kl. 13:00 er fundur með yfirskriftinni „Er það hlutskipti iðnaðarins að vera umhverfissóðar?“ og laugardaginn 7. september kl. 13:00 er spurt „Er stytting vinnuvikunnar lýðheilsumál eða kjaramál?“. Sjá dagskrá iðnaðarmannafélaganna.

Nánar um Lýsu

Dagskrá hátíðarinnar í ár er fjölbreytt en þar má finna yfir 50 viðburði. Þú finnur dagskrá hátíðarinnar hér

Dagskráin hefst á föstudagsmorgni m.a. með Stórþingi ungmenna og málþingi BHM um fjórðu iðnbyltinguna. Setning hátíðarinnar fer fram um hádegisbilið þar sem skemmtikrafturinn og fyrrum borgarstjórinn Jón Gnarr ávarpar gesti og Halla Björk Reynisdóttir setur hátíðina. Tónlistarfólkið Andrea Gylfadóttir og Kristján Edelstein skapa svo notalega stemningu með fallegri tónlist sinni og blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyrar flytur nokkur lög.

Eftir hádegi standa til að mynda SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fyrir viðburðum en klukkan 15:30 fær fjölmiðlakonan Guðrún Sóley Gestsdóttir, til sín góða gesti í sófaspjall undir yfirskriftinni Speglar listin samfélagið? Í sófann, til að tjá sýn sína á samfélagið, mæta Jón Gnarr, Matthías Tryggvi Haraldsson, listamaður og Hatari, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, teiknari og tónlistarskona og Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands. Tónlistarmaðurinn Mugison tekur svo nokkur lög.

Laugardagurinn hefst með krafti á fyrirlestrinum Fljúgðu inn í haustið með Sölva Tryggva. Líkt og með aðra viðburði Lýsu er fyrirlestur Sölva opinn öllum. Barnaheill, Landvernd, Umboðsmaður barna, Iðnfélögin, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Íslandsbanki og Alþingi eru á meðal viðburðahaldara á laugardeginum og eftir hádegi mun Lóa Hjálmtýs halda Myndasögusmiðju.

Klukkan 16 verður sófaspjall með Sölva Tryggva en hann fær til sín skemmtilega gesti til að ræða umdeild málefni. Eftir sófaspjallið er komið að uppistandi Snjólaugar Lúðvíksdóttur og svo upphitun Stefáns Hilmarssonar og Jóns Ólafssonar sem verða með spjalltónleika í Hamraborg um kvöldið.

Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi á LÝSU en nákvæma dagskrá er að finna hér á vefnum. Mögulegar breytingar og uppfærslur munu birtast jafnóðum á vefnum.