Eru umhverfisstefnur hótela svindl?

Þing Samtaka starfsfólks á hótelum og í ferðaþjónustu á Norðurlöndum var haldið í Reykjavík daganna 17. til 19. janúar sl. Á þinginu var farið yfir fjölmarga þætti sem varða laun og starfsaðstæður í hótel- og veitingageiranum á Norðurlöndum. Það eru mismunandi verkefni og ógnanir sem stéttarfélög og starfsmenn standa frammi fyrir í einstökum löndum, en verkefnin eru alltaf þau sömu, þ.e. að tryggja hag félagsmanna í sífellt alþjóðlegra umhverfi þar sem ýmsum brögðum er beitt af hálfu atvinnurekenda.  

Á þinginu var kynnt skýrsla um ,,umhverfisstefnu“ Marriot-hótelkeðjunar sem vekur upp margar spurningar. Í skýrslunni er farið yfir hvernig sú stefna Marriot að þrífa herbergi minna og sjaldnar undir yfirskrift umhverfisverndar er í raun og veru blekking. Áhrifin á umhverfið eru hverfandi, til dæmis vegna þess að þegar herbergi eru þrifin sjaldnar, þá er notað meira af hreinsiefnum í hvert skipti og einnig þarf að nota meira vatn.  Áhrifin á starfsmenn eru hins vegar afar mikil. Þeir fá minni tíma til að sinna sínum störfum, heilum vöktum er fækkað og margir þurfa að búa við það að vera kallaðir út á nóttunni til að þrífa – eftir því hversu margir gestir setja ,,spjald á hurðarhúninn“ um að óskað sé eftir þrifum. 

Umhverfisverndin er bara í orði og þetta fyrirkomulag og ,,umhverfisstefna“ hótelanna snýst eingöngu um að auka hagnað eigendanna undir fölsku flaggi. Þessi góða skýrsla er unnin af systursamtökum okkar í Bandaríkjunum, Unite Here, og er hægt að lesa meira um úttektina hér

Þetta eru mjög sláandi niðurstöður og vekja um margar spurningar um hvernig slíkum málum er háttað hér á landi. Nú er Marriot-hótel í byggingu við hlið Hörpu og þurfum við að fylgjast vel með hvernig fyrirkomulagið verður þar. Eru umhverfisstefnur hótela ef til vill bara blekking til að ná sér í velvild gesta, sem þjóna aðallega þeim tilgangi að auka gróða hótela á kostnað starfsfólks? Getur verið að slíkt sér reyndin á hótelum hér á Íslandi?